138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:29]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Um leið og ég þakka samstarfið í fjárlaganefnd langar mig að beina einni spurningu til hæstv. formanns hennar. Í sumar fengum við Seðlabankann á fund fjárlaganefndar til að fá upplýst um skuldastöðu þjóðarbúsins. Hann var eitthvað tregur til og við þurftum að senda hann heim í tvígang þangað til hann kom í þriðja sinn og vildi ekki gefa nákvæma stöðu. Við sem vorum þá í stjórnarandstöðu vildum setja fyrirvara þannig að ef hlutfall erlendra skulda þjóðarbúsins af vergri landsframleiðslu færi yfir 240% mundi ríkisábyrgðin grundvallast á því. Þetta var gert til að koma í veg fyrir greiðslufall ríkissjóðs.

Nú liggur fyrir samkvæmt minnisblaði sem Seðlabankinn afhenti fjárlaganefnd að skuldastaðan er 300% af vergri þjóðarframleiðslu og 310% samkvæmt Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Þetta var sett inn í álit (Forseti hringir.) meiri hlutans og sagt að þau mundu halda, (Forseti hringir.) þessi 240%. Ég spyr (Forseti hringir.) formann fjárlaganefndar: Er hann enn þá sömu skoðunar og hann var í lok ágúst?