138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:36]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt að það mun örugglega reyna á neyðarlögin fyrir rétti. Ein af röksemdunum, það hefur komið fram í umfjöllun í blöðum frá Kristni H. Gunnarssyni o.fl., er einmitt að það að ganga frá samningum við langstærstu kröfuhafana þar sem ekki verður látið reyna á neyðarlögin muni veita okkur mun meiri vernd en annað. Áhættan verður miklu minni með frágangi Icesave-samningsins en ef við göngum ekki frá samningnum og förum í neyðarlögin, sem sagt fáum á okkur dóma út af neyðarlögunum án þess að vera með þá tryggingu sem þar er. Við fáum þarna baktryggingu frá stærstu ríkjunum í sambandi við að láta reyna á neyðarlögin og það kostar ákveðið en það eru alveg rök fyrir því að við séum betur sett með samningana og það hefur komið fram í umræðunni af hálfu margra. Ég get ekki svarað þessu öðruvísi en að ég tel að það eigi að ganga frá samningunum. Við vitum af áhættunni varðandi neyðarlögin en það reynir á þessa upphæð upp á 600 milljarða kr. (Forseti hringir.) ef samningarnir verða ekki samþykktir.