138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:37]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ef ég mætti túlka svar þingmannsins var hann að segja að þetta hafi nánast ekkert verið skoðað í fjárlaganefnd. (Gripið fram í: Það er rangt.) Mér finnst mjög einkennilegt að ætla að réttlæta það með því að þarna sé búið að taka burtu hluta af þeim sem mundu hugsanlega höfða mál. Ég tel að innstæðutryggingarsjóðirnir í Bretlandi og Hollandi mundu gjarnan vilja að neyðarlögin héldu vegna þess að þeir eru þar með forgangskröfur sem mundu þá breytast í almennar kröfur. Þar erum við að tala um að kröfurnar sem eru komnar í þrotabúið eru upp á 6.500 milljarða meðan talað er um að eignirnar séu einhvers staðar í kringum 1.300 milljarða þannig að þarna erum við að tala um hugsanlega 20–30% heimtur í staðinn fyrir allt að 90–100%. Ég ítreka: Er þetta ekki nokkuð sem hv. þingmaður telur ástæðu til að fjárlaganefnd fjalli sérstaklega um? Það virðist ekki hafa verið fjallað um það á fundum nefndarinnar og væri sérstaklega ástæða til að skoða því að þetta er stærsti áhættuþátturinn að mati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrir framtíð íslensks efnahagslífs. Skuldir ríkisins, bara ríkisins, aukast um 40% (Forseti hringir.) af landsframleiðslu og þar með ættum við væntanlega að vera komin (Forseti hringir.) efst á listann yfir skuldugustu ríki (Forseti hringir.) í heiminum.