138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

flutningur málefna fatlaðra til sveitarfélaga.

[13:45]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F):

Frú forseti. Ég vil þakka málshefjanda fyrir að vekja athygli á þessu mikilvæga máli. Ég held að það sé geysimikilvægt að fara af röggsemi í það eins og ákveðið hefur verið, að flytja þennan málaflokk yfir til sveitarfélaganna. Ég ætla svo sem ekki að hafa mörg orð um það vegna þess að ég held að um það sé víðtæk sátt í þjóðfélaginu. Hins vegar þarf að huga að mörgu, þessu þurfa náttúrlega að fylgja tekjustofnar og það þarf að gæta þess að jafnræði sé meðal sveitarfélaganna í því að bjóða upp á þessa þjónustu.

Ég vildi líka sjá, og hæstv. ráðherra hafði um það nokkur orð, að við notuðum þetta tilefni til þess að hugsa þjónustuna við fatlaða upp á nýtt. Ég vildi að við beindum sjónum okkar að notendastýrðri persónulegri þjónustu við fatlaða og gerðum jafnframt á sama tíma að viðfangsefni okkar að efla slíka þjónustu við aldraða. Ég held að við séum á þeim tímamótum núna í uppbyggingu þessa kerfis að við getum tekið ýmsar ákvarðanir sem auka einfaldlega virðingu fyrir mannréttindum fatlaðra. Fatlaðir eiga rétt á því að stjórna sínu lífi, þeir eru sjálfstæðir einstaklingar og með of mikilli stofnanavæðingu í þjónustu við fatlaða göngum við á þennan rétt. Með því að efla notendastýrða persónulega þjónustu með aðstoðarmannakerfi þar sem fatlaðir geta valið sér sjálfir aðstoðarmenn í gegnum miðstöðvar sem sveitarfélögin þá reka eftir að málaflokkurinn er kominn yfir til þeirra tryggjum við að á Íslandi geti fatlaðir farið um og notið þjóðfélagsins eins og sjálfstæðir einstaklingar. Við eigum að nota þennan tímapunkt til að efla þennan rétt fatlaðra (Forseti hringir.) eins og hefur verið gert, held ég að ég fari rétt með, annars staðar á Norðurlöndunum.