138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

flutningur málefna fatlaðra til sveitarfélaga.

[13:52]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þá umræðu sem hér fer fram en umræðan um verkefnaflutning frá ríki til sveitarfélaga hefur lengi verið til umræðu í samfélaginu, bæði innan þings og utan og líka hjá sveitarfélögunum. Á undanförnum árum hafa margir sveitarstjórnarmenn talað fyrir flutningi verkefna en aðrir hafa haft uppi varnaðarorð þar um og á misjöfnum forsendum. Helstu áhyggjur manna hafa verið að með flutningnum muni ekki fylgja þeir fjármunir sem til þurfi og verkefnið muni reynast sveitarfélögunum erfitt fjárhagslega þó að félagslega og tæknilega séu þau bæði í ágætum færum og með góðan vilja.

Ég vil líta á málið frá öðrum sjónarhóli, þ.e. sjónarhóli notendanna. Hver er þeirra vilji? Við skulum í því sambandi ekki gleyma kjörorðum Öryrkjabandalagsins: „Ekkert um okkur án okkar“. Samkvæmt mínum upplýsingum hefur stjórn Öryrkjabandalagsins ekki ályktað sérstaklega um þetta mál frá árinu 2000, þá ályktaði hún á móti þessum flutningi. Forsvarsmenn öryrkja hafa meðal annars áhyggjur af því að löggjöfin um málaflokkinn sé ekki enn þá nægilega sterk, eins og raunar hefur komið fram í umræðunni hér, til þess að halda utan um verkefnaflutninginn og þjónustan verði þannig afar misjöfn eftir sveitarfélögum og stærð og efnahagur sveitarfélaganna muni ráða meiru um þjónustuna en þarfir notendanna.

Hins vegar er það stefna allra stjórnmálaflokka á Íslandi að nærþjónusta eigi að vera á hendi sveitarfélaganna og ég tel það vera skynsamlega stefnu. Þetta er augljóslega svoleiðis mál. Hins vegar þarf að mínu viti að hafa meira samráð við fulltrúa notendanna, það þarf að styrkja löggjöfina og tryggja sveitarfélögunum tekjustofna með málaflokknum áður en ráðist er í flutning.