138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:01]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr):

Frú forseti. Hér stend ég og ræði Icesave enn einu sinni eins og aðrir þingmenn, fimm mánuðum eftir að það kom fyrst inn í þingið. Þetta mál er dæmalaust og það hefur verið athyglisvert en þó dapurlegt að vera þátttakandi í þessu öllu. Ég fer yfir álit 1. minni hluta fjárlaganefndar en þar á ég sæti sem fulltrúi Hreyfingarinnar. Ég er kominn dýpra á kaf í þetta blessaða mál en ég kæri mig kannski um að viðurkenna en engu að síður mun ég lýsa skoðun okkur á því.

Fyrsti minni hluti fjárlaganefndar átelur einfaldlega málsmeðferð meiri hluta fjárlaganefndar á þessu máli þar sem meiri hlutinn hafnaði að ræða ýmis brýn álitamál varðandi greiðslugetu þjóðarbúsins, efnahagslegar forsendur Icesave-samkomulagsins og óvissuþætti sem upp gætu komið varðandi málið. Meiri hluti nefndarinnar hafnaði því einnig að skoðaðar væru nýjustu tölur sem sýna fram á að erlendar skuldir ríkissjóðs eru hugsanlega orðnar óviðráðanlegar. Ríkisábyrgðin sem nú liggur fyrir að þingið eigi að samþykkja er ótakmörkuð í tíma og umfangi. Upp hafa komið álitamál, síðast núna í morgun viðraði Sigurður Líndal að hér væri hugsanlega um að ræða brot á stjórnarskránni. Fjárlaganefnd mun að sjálfsögðu leggjast yfir það mál og skoða það eins fljótt og auðið er en þetta er dæmi um í hvaða ógöngur þetta mál er komið og hefur verið í langan tíma.

Ljóst er að skuldsetning þjóðarbúsins erlendis er komin langt umfram það sem gerist hjá mjög skuldugum þjóðum heims og eru miklar líkur á því að þjóðarbúið komist einfaldlega í greiðsluþrot haldi þær forsendur ekki sem stjórnvöld gefa sér varðandi endurheimtuhlutfall á eignum Landsbankans, hagvöxt á Íslandi, gengi krónunnar, mannfjöldaþróun og verðlag í Bretlandi og á evrusvæðinu.

Athyglisvert er að benda á það sem stendur í greinargerð með nefndaráliti fjárlaganefndar frá því í sumar þar sem talað er um að endurskoða eigi þennan samning allan ef skuldir þjóðarbúsins fara upp fyrir 240% af vergri landsframleiðslu. Þær eru núna komnar upp í a.m.k. 310% og áfram er haldið eins og ekkert hafi í skorist. Greiðslur af þessum Icesave-lánum eru í erlendri mynt, evrum og pundum að mestu leyti, og það þarf að afla þess gjaldeyris með afgangi af útflutningstekjum þjóðarinnar. Tölur Seðlabankans sýna hins vegar að halli á vöru- og þjónustujöfnuði hefur verið neikvæður 12 af síðustu 19 árum. Afgangur hefur mestur verið 22 milljarðar á einu ári. Það var árið 1994. Á 18 ára tímabili, 1990–2008, var ekki halli á viðskiptunum sjö ár og afgangurinn samanlagt þessi sjö ár var 76 milljarðar. Samanlagður halli á vöru- og þjónustujöfnuði frá árinu 2000 er hins vegar 632 milljarðar eða 70 milljarða kr. halli að meðaltali á ári. Umsögn Seðlabankans frá því í sumar gerir hins vegar ráð fyrir 163 milljarða kr. afgangi á viðskiptum við útlönd á hverju einasta ári að meðaltali næstu tíu árin. Nýjustu spár Seðlabankans gera einnig ráð fyrir að útflutningstekjur verði um helmingur vergrar landsframleiðslu. Þetta hlutfall er algerlega óraunhæft en það hefur hæst náð um 33% af vergri landsframleiðslu þegar best var. Þess má geta að við afgreiðslu málsins sl. sumar taldi Seðlabankinn sjálfur óraunhæft að þetta hlutfall mundi breytast. Í ljósi þróunar á viðskiptum við útlönd undanfarna áratugi, og þeirrar staðreyndar að Ísland er aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og getur því ekki hindrað flæði vöru og þjónustu, virðist spá Seðlabankans vera algerlega óraunhæf, svo óraunhæf að hún jaðrar við skáldskap að mínu mati. Það er spurning hvort hér hafi tölunum verið hagrætt til að passa utan um málið.

Minni hlutinn telur að skoða þurfi skuldastöðu þjóða með hliðsjón af aðstæðum í hverju landi. Málið er kannski ekki endilega hvort ríkið geti staðið undir skuldbindingum sínum heldur hvort þjóðin geti það. Ríkið getur staðið í skilum með því einfaldlega að taka þessa upphæð af þjóðinni í formi hærri skatta og skertrar velferðarþjónustu. Málið snýst um efnahag Íslands meðan á greiðslum stendur en hugsanlegt er að farið verði svo djúpt í skattlagningu að upp úr því verði seint komist. Fólk og fyrirtæki eru hreyfanleg og mörg þeirra munu flýja land ef of langt verður gengið í skattheimtu og skerðingu lífskjara til að standa í skilum á erlendum lánum þjóðarbúsins. Afar lítill hluti af auði landsins er bundinn við landið nema e.t.v. landbúnaðurinn, stóriðjan og hluti af fiskveiðunum. Hugvitið er hreyfanlegt.

Hvað varðar mat á eignum þrotabús Landsbanka Íslands hf. hefur enginn fengið að sjá hverjar þessar eignir eru fyrir utan skilanefnd bankans. Gert er ráð fyrir að 75–90% eignanna í safninu gangi upp í skuldina vegna Icesave-reikninganna. Við venjubundið gjaldþrot teljast 20% endurheimtur á eignum góðar en 30% mjög góðar. Í skýrslu finnska fjármálaeftirlitsins frá árinu 2003 kom fram að eignir finnsku bankanna voru ofmetnar og skuldirnar voru vanmetnar í a.m.k. ár eftir að bankarnir lentu í erfiðleikum við upphaf fjármálakreppunnar á 10. áratug síðustu aldar. Miðað við þá reynslu má telja líklegt að eignir Landsbankans séu enn ofmetnar og skuldirnar vanmetnar. Þá bendir 1. minni hluti á að ekki hefur enn fengist upp gefið hversu stór hluti af eignum Landsbankans eru veðsettar.

Minni hlutinn bendir einnig á að ofmat á eignum Landsbankans mun þýða að minna endurheimtist af þeim á næstu árum þannig að höfuðstóll Icesave-lánanna verður hærri eftir sjö ár en gert er ráð fyrir. Þess má geta að síðast í morgun eða í gær komu fram upplýsingar um að skuldir Glitnis væru umtalsvert hærri en gert var ráð fyrir og þó er sá banki búinn að vera undir smásjá yfirvalda ekki bara í eitt ár heldur í bráðum eitt ár og tvo mánuði að auki.

Þess má geta að íslenskir ráðamenn hafa haldið því á lofti að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi á sínum tíma lagt blessun sína yfir matið á eignum Landsbankans. Hins vegar hefur verið staðfest af hálfu fulltrúa AGS á Íslandi að það hafi aldrei verið gert. Í ljósi þess að með samþykkt Icesave-samninganna verður skuldabyrði þjóðarbúsins tæplega viðráðanleg, og er jafnvel nú þegar orðin óviðráðanleg, og lítið eða ekkert megi út af bregða til að þjóðin lendi í greiðsluþroti telur minni hlutinn sig ekki geta mælt með því að Alþingi samþykki nýja útgáfu af ríkisábyrgð vegna Icesave-samninganna. Það eru einfaldlega of miklar líkur á að þjóðin geti ekki staðið undir skuldum á næstu árum. Þessu frumvarpi fylgir mikil óvissa um greiðslugetu ríkissjóðs sem og um greiðslugetu þjóðarbúsins í heild og það er einfaldlega mjög varasamt að rýmka þá fyrirvara sem Alþingi samþykkti við ríkisábyrgðina sl. sumar. Minni hlutinn telur afgreiðslu málsins gagnrýniverða og telur það lýsa fádæma þjónkun við framkvæmdarvaldið að þingnefnd skuli afgreiða frumvarp sem felur í sér svo veigamiklar breytingar á lögum sem Alþingi sjálft er nýbúið að samþykkja og samþykki þær breytingar nánast umyrðalaust.

Að mínu mati ber aðkoma fjárlaganefndar að málinu einkenni sýndarmennsku í stað vandaðrar úttektar á þeim efnisatriðum málsins sem nefndin átti að fjalla um. Fjárlaganefnd fjallaði heldur ekki efnislega um álit efnahags- og skattanefndar en frá þeirri nefnd komu fjögur minnihlutaálit, álit sem fjárlaganefnd hafði þó óskað sjálf eftir. Ég leyfi mér að vitna í minnihlutaálit annars stjórnarflokksins, álit fulltrúa Vinstri grænna í efnahags- og skattanefnd. Þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Gert er ráð fyrir að hlutfall skulda hins opinbera af vergri landsframleiðslu (VLF) verði 125% á árinu 2009. Þetta hlutfall má ekki vera hærra en 60% vilji Íslendingar uppfylla Maastricht-skilyrðin og gerast aðilar að evrópska myntsamstarfinu. Aðeins eitt þróað hagkerfið er með hærra skuldahlutfall hins opinbera en það er Japan. Lítill hagvöxtur í Japan undanfarna tvo áratugi hefur að hluta verið rakinn til mikillar skuldsetningar hins opinbera. Það eru því líkur á því að mikil skuldsetning hins opinbera hér á landi muni draga úr hagvexti á næstu árum.“

Í áliti minni hluta Vinstri grænna í efnahags- og skattanefnd segir enn fremur, með leyfi forseta:

„Í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) um skuldaþol íslenska þjóðarbúsins er hlutfall erlendra skulda þjóðarbúsins af VLF áætlað 310% fyrir árið 2009. Við útreikning á hlutfallinu gjaldfærir sjóðurinn heildarupphæð Icesave-lánasamninganna og nemur upphæðin um 49% af VLF eða um 721 milljarði kr. sem kemur til viðbótar annarri skuldsetningu opinberra aðila og einkaaðila. Þess má geta að AGS notar alþjóðlega staðla við mat á skuldbindingum og miðar alltaf við heildarskuldsetningu þjóðarbús við erlenda aðila sem hlutfall af VLF. Í nóvember 2008 mat AGS að 240% skuldahlutfall væri „augljóslega óviðráðanlegt“ (clearly unsustainable). Ári síðar telur sjóðurinn að 310% hlutfall sé viðráðanlegt. Þessi mótsögn í mati sjóðsins er athyglisverð í ljósi þess að íslenska ríkið gæti ekki ábyrgst lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu ef skuldaþolsmörkin frá því í nóvember 2008 héldu og væru enn 240%. Það er ekki hægt að útskýra þessa stefnubreytingu AGS nema með þeim hætti að Bretar og Hollendingar hafi beitt pólitískum þrýstingi í stjórn AGS til að tryggja að íslenska ríkið taki á sig Icesave-skuldbindingarnar.“

Í ljósi þessa og margs annars telur minni hlutinn hneykslanlegt að ekki skuli hafa verið skoðað að fá betri úttekt á framlögðum gögnum frá Seðlabanka Íslands og fjármálaráðuneytinu og enn fremur ábyrgðarlaust af hálfu meiri hlutans að afgreiða málið með þessum hætti. Í ljósi þessa stóra máls og alls þess sem fram hefur komið um málið á undanförnum mánuðum, sem og þess að hér er um risavaxið mál fyrir íslenska þjóðarbúið og íslenskan almenning að ræða, mun ég leitast við að setja þetta álit og þetta mál inn í þann ramma sem ég tel hæfa því þannig að það liggi ekki í lausu lofti fyrir komandi kynslóðir.

Aðdragandi þessa máls er eins og margir þekkja byggður að vissu leyti á hugmyndafræði sem keyrði áfram árum og jafnvel áratugum saman, hugmyndafræði sem byggðist á því að græðgi væri æskileg, peningar væru miðja alls og heppilegt væri að ná sér í sífellt meiri peninga á kostnað nánast alls annars. Við urðum vitni að þessu, hvernig þetta komst inn í stjórnmálin á Íslandi, stjórnmálaflokka og athafnir ríkisstjórna. Við urðum vitni að þessu við einkavæðingu bankanna á sínum tíma og hvernig sú einkavæðing fór fram þar. Náungum sem að margra mati voru taldir mjög vafasamir pappírar voru afhentir bankar, ekki út á reynslu og ekki af því að þeir ættu fyrir þeim, því við þurftum að fá lánað fyrir þeim, heldur út á tengsl við stjórnmálaflokka. Fyrir það greiðum við nú skattinn og við skulum halda því til haga. Í kjölfarið á þessu öllu saman og til að tryggja að mönnum tækist örugglega að græða enn meira, af því að græðgi var góð, voru eftirlitsstofnanir hins opinbera holaðar að innan. Forstöðumenn þeirra voru pólitískir vinir og samherjar stjórnmálamannanna sem réðu á þeim tíma. Þeir voru ekki ráðnir á hæfnisforsendum, starfsmenn stofnananna voru jafnvel ekki einu sinni ráðnir á hæfnisforsendum, Seðlabanki Íslands brást algerlega í öllu þessu máli og Fjármálaeftirlitið líka, sem átti þó að gæta hagsmuna.

Hér varð efnahagshrun í kjölfar bankahrunsins og við því var að búast að stjórnvöld reyndu að bregðast við með einhverjum hætti. Stjórnvöld virðast aftur á móti aldrei nokkurn tímann hafa velt því fyrir sér að þetta gæti gerst því að viðbrögðin voru fálmkennd. Heimurinn sem þeir bjuggu í og leið svo vel í var hruninn til grunna. Það besta sem þáverandi forsætisráðherra gat gert var að biðja guð um hjálp og hefur annað eins að mínu mati aldrei áður heyrst í íslenskum stjórnmálum. Þvílík vanvirðing við íslenska þjóð og þvílík vanvirðing við stjórnmál á Íslandi að geta ekki axlað ábyrgðina betur en þetta.

Við hrun þessara banka kom í ljós það sem margir höfðu bent á, að hér var um að ræða botnlausar blekkingar og lygi þar sem menn höfðu staðhæft hluti og byggt spilaborgir sem áttu sér enga stoð í raunveruleikanum. Menn eignfærðu viðskiptavild upp á tugi og hundruð milljarða og fluttu fyrirtæki og fjármuni á milli kennitalna eins og ekkert væri. Það virtist nánast alveg sama hvað menn gerðu, það var ekkert ólöglegt til í dæminu, engar reglur og ekkert eftirlit með neinu.

Ég er menntaður hagfræðingur, frú forseti, og ég efast um að svona fyrirkomulag hafi nokkurn tímann viðgengist í nokkru einasta ríki á jarðkúlunni, að menn hafi getað hagað sér með þessum hætti. Það var ótrúlegt að verða vitni að því og einnig er ótrúlegt að verða vitni að því sem enn er að koma í ljós varðandi þetta mál. Hrunið á fjármálamarkaði var algert, hrun stjórnmálanna og stjórnkerfisins var algert. Að hluta til er þetta að sjálfsögðu afleiðing áratuga valdasetu manna sem höfðu ekkert aðhald og gátu komið sínu fram í krafti meirihlutavalds, m.a. hér á þingi, í krafti þess að skirrast einskis í því að skipa vini og flokksmenn yfir þær eftirlitsstofnanir sem áttu að hafa eftirlit með kerfinu. Það virtist hafa verið alger samkeyrsla á öllum sviðum hvað varðar vináttu, pólitísk tengsl og völd en hagsmunir almennings og eðlileg vinnubrögð voru látin sitja á hakanum.

Hrun samfélagsins leiddi til þess að 87% landsmanna vantreysta Alþingi sem stofnun og 80% landsmanna telja í dag að stjórnmálamenn á Íslandi séu spilltir. Við þurfum að velta því fyrir okkur, ágætu þingmenn, hvað það þýðir fyrir okkur og hvernig við ætlum að vinna á þessu þingi við þessar kringumstæður. Þýðir þetta ekki einfaldlega að við þurfum að hætta öllum leikaraskap og fara að starfa heiðarlega, eins og sagði á þjóðfundinum margfræga?

Þetta leiddi að sjálfsögðu til stigvaxandi mótmæla almennings sem áttu sér enga hliðstæðu í Íslandssögunni. Þetta voru mótmæli gegn þeirri algeru firringu stjórnmálamannanna sem hér viðgekkst, og ég þreytist aldrei á að nefna, og átti sinn hápunkt í dagskrá þingsins þann 20. janúar sl. þegar þúsundir manna stóðu hér fyrir utan og reyndu að komast inn — ekki til þess að klappa þingmönnum á bakið — en þá var á dagskrá þingsins frumvarp sjálfstæðismanna um sprúttsölu. Þetta leiddi til afsagnar ríkisstjórnarinnar sem þá var við völd, sennilega verstu ríkisstjórnar sem hefur verið við völd í Íslandssögunni, og var það vel.

Síðan voru kosningar. Í þeirri kosningabaráttu voru nýjar áherslur, ný loforð og nýr stjórnarsáttmáli var undirritaður en eins og ég hef upplifað það, frú forseti, hefur þetta þegar á reynir verið meira og minna sama innantóma kjaftæðið. Það virðist ekki standa steinn yfir steini í efnahagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar. Hér er sett fram frumvarp sem á að hjálpa heimilunum en sker þess í stað kúlulánþega niður úr snörunni. Sömu blekkingarnar og sami blairisminn er í gangi hjá þessari ríkisstjórn og var hjá þeirri fyrri og þeim þar á undan.

Leyniviðræður við Breta og Hollendinga um Icesave-samningana voru í gangi fram eftir öllu ári. Enginn mátti vita um þá og því var neitað að niðurstöðu væri að vænta í málinu tveimur dögum áður en skrifað var undir samningana. Það þurfti að toga upplýsingarnar upp úr hæstv. fjármálaráðherra með töngum. Það átti ekki einu sinni að birta samninginn um Icesave sem var síðan birtur í júní, honum var haldið leyndum dögum saman. Formaður efnahags- og skattanefndar lýsti því yfir opinberlega að það væri óþarfi að lesa samninginn, það væri alveg hægt að greiða um hann atkvæði með því að fá að sjá valda punkta úr honum.

Á endanum var samningnum lekið til fjölmiðla, sennilega af Hollendingum sem höfðu komið á fund þingflokka hér og blöskraði hvernig íslensk stjórnvöld höndluðu málið. Þegar þeir Hollendingar voru spurðir að því hvort þeir mundu nokkurn tímann leggja svona samning fram fyrir þjóð sína án þess að sýna henni hann fyrst sögðu þeir einfaldlega: Nei, að sjálfsögðu ekki, það er alveg fáránleg hugmynd. Nóttina eftir birtist útdráttur úr þeim samningi í fjölmiðlum og í kjölfarið var ríkisstjórnin neydd til að gera hann opinberan. Þá kom í ljós að sá samningur var óréttlátur gagnvart landi og þjóð, algerlega óásættanlegur frá réttlætis- og sanngirnissjónarmiðum. Dósent í lögum við Háskóla Íslands, Elvira Mendez, fór rækilega yfir þennan samning og komst að þeirri niðurstöðu að innan ESB væri þessi samningur sennilega ólöglegur gjörningur vegna þess að það hallaði svo mikið á annan samningsaðilann. Við þurfum ekki að geta okkur lengi til um hver sá samningsaðili var, það var að sjálfsögðu Ísland. Álit hennar kom fyrir efnahags- og skattanefnd, hlutlaust álit sem fjallað var um af sanngirni og breytti viðhorfum manna. Við hefðum betur leitað til slíks fólks oftar í þessu máli.

Niðurstaðan varð sú að ríkisstjórnin krafðist þess að almenningur á Íslandi greiddi skuldir Björgólfsfeðga og útrásarvíkinganna. Aldrei hefði hvarflað að mér, frú forseti, að nokkurri íslenskri ríkisstjórn skyldi detta í hug að bera þetta á borð en þessari ríkisstjórn datt það í hug og meira en það. Þau eru búin að fylgja eftir þessari hugdettu sinni samfleytt í fimm mánuði og nú í annarri umferð í gegnum þingið þrátt fyrir nýsamþykkt lög frá Alþingi. Að mínu viti er þetta slík vanvirða við Íslendinga og almenning að ég á einfaldlega ekki til orð til að lýsa þessu.

Þetta eru galnir samningar ef skoðað er grannt, hvort sem um er að ræða samningana frá því í sumar eða nýgerða samninga. Gert er ráð fyrir háu endurheimtuhlutfalli úr þrotabúi Landsbankans. Á þessum samningum eru mjög háir vextir, það háir að ríkissjóðir Breta og Hollendinga munu hagnast umtalsvert á þessum lánum til Íslendinga. Það er gengisáhætta í þessum samningum, upptöku eigna Íslendinga var hótað og þjóðarbúið hefði verið knésett. Þetta voru verstu samningar sem hugsast gat. Þingmenn komu auga á þetta og höfðu bæði nennu og kjark til að takast á við það hér í sumar. Það náðist að vinna saman nokkurn veginn þverpólitískt í þessu máli með aðkomu allra þingflokka. Þar á meðal tóku þátt hugrakkir þingmenn Vinstri grænna sem sögðu: Það er ekki hægt að bjóða þjóðinni upp á þetta. Þeir urðu fyrir miklu aðkasti frá sínum samflokksmönnum og samstjórnarþingmönnum en gáfust ekki upp og sögðu að þetta færi ekki í gegnum þingið óbreytt. Hér sátum við og stóðum stóran hluta sumarsins til þess að reyna að koma þessu máli í betra horf.

Allan þann tíma virtist ríkisstjórnin vera á móti því að þessum samningum yrði breytt og að reynt yrði að tryggja hag almennings í landinu gagnvart Bretum og Hollendingum. Þess í stað var stanslaust hamrað á því, og ekki síst af sjálfum hæstv. forsætisráðherra, að stjórnarsamstarfinu yrði slitið ef Vinstri grænir tækju sig ekki saman í andlitinu í þessu máli. Þetta var að mörgu leyti ánægjulegur tími en um leið dapurlegur því að sl. sumar sá maður það besta og versta í fólki. Hv. formaður fjárlaganefndar þá, Guðbjartur Hannesson, lagði sig mikið fram við að ná sáttum í þessu máli og vandaðri niðurstöðu og hann á hrós skilið fyrir það. Út úr þeirri vinnu komu fyrirvarar sem voru settir við ríkisábyrgðina sem ríkisstjórnin krafðist að yrði sett á þessi lán. Þeir fyrirvarar tryggðu þjóðinni vörn gegn áhættu út af gengisbreytingum, gegn því að hugsanlega yrði hér minni hagvöxtur en reiknað var með og að endurheimtur úr þrotabúinu yrðu minni en reiknað var með. Það voru fyrirvarar efnahagslegs eðlis sem tryggðu að ef áraði verr á Íslandi en gert var ráð fyrir í spám ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans mundi almenningur og þjóðarbúið ekki verða knésett út af greiðslum vegna þessa máls. Þetta voru góðir fyrirvarar, sanngjarnir og fyllilega eðlilegir.

Allir fjárlaganefndarmenn nema einn voru samþykkir málinu þegar það fór út úr fjárlaganefnd. Langflestir þingmenn voru samþykkir öllum þeim breytingartillögum sem gerðar voru við frumvarpið þó að menn greiddu atkvæði gegn því þegar upp var staðið en það voru aðrar ástæður fyrir því en að fyrirvararnir sjálfir væru ekki góðir. Þessi samþykkt Alþingis var söguleg vegna þess að hún var þverpólitísk og allir sem kynntu sér málið sáu sem var að hér væri um eðlilega framvindu að ræða á risastóru máli sem gæti skipt sköpum fyrir land og þjóð. Þessi samþykkt Alþingis var bundin því skilyrði að hún yrði kynnt fyrir Bretum og Hollendingum sem niðurstaða Alþingis í málinu. Samþykkt Alþingis var hins vegar að mínu mati vanvirt af ríkisstjórninni og stjórnsýslunni. Þessi samþykkt Alþingis hafði ætíð mætt andstöðu þeirra embættismanna sem virðast frá fyrstu tíð hafa klúðrað öllu í samningum Íslendinga við erlenda aðila. Það sást best í þeim þáttum ríkissjónvarpsins um daginn sem fjölluðu um hrunið að sömu mennirnir trítla til útlanda með skjalatöskurnar sínar viku eftir viku, mánuð eftir mánuð, samning eftir samning, Icesave-samning eftir Icesave-samning.

Hvernig dettur mönnum í hug að senda sömu menn til samninga aftur og eru nýbúnir að semja um samning sem var felldur af Alþingi Íslendinga og reyna að fá sömu menn til þess að framfylgja breyttum samningi? Ég átta mig ekki á hverjir stjórnuðu þessu öllu saman. Ég átta mig heldur ekki á hvað menn höfðu í huga en þeir höfðu það alla vega ekki í huga að samþykkt Alþingis frá því í sumar yrði rækilega kynnt og virt. Enda kom í ljós á fyrsta fundi fjárlaganefndar þegar ríkisstjórnin tilkynnti að það væri búið að endursemja um Icesave, endursemja við Breta og Hollendinga um lög frá Alþingi, með hvaða hætti þeir hefðu kynnt samninginn fyrir embættismönnum Breta og Hollendinga. Það var ekki á þeim að heyra að þeir vissu einu sinni um hvað fyrirvararnir snerust. Það var ein dapurlegasta upplifun mín í þessu ferli öllu að sitja á móti þeim og heyra þá skýra frá því hvernig þeir reyndu að koma sér frá þessu máli á erlendri grund.

Að mínu mati var þessum nýju samningum líka klúðrað algjörlega. Fyrirvararnir voru eyðilagðir, sérstaklega þeir efnahagslegu. Ríkisábyrgðin er ótakmörkuð í tíma og rúmi. Við vitum ekki hve mikið við munum borga og við vitum ekki hvenær við verðum búin að borga það. Börnin og barnabörnin munu að öllum líkindum greiða þetta því efnahagslegu forsendurnar sem ríkisstjórnin gefur sér eru mjög ólíklegar til að halda. Þótt allt fari á versta veg í efnahagslífinu munu Íslendingar halda áfram að greiða vexti af þessum upphæðum úti í hið óendanlega. Það eru engin endimörk á greiðslunum. Við munum greiða út í hið óendanlega í boði ríkisstjórnarinnar og þeirra ráðherra sem þá verða væntanlega komnir á eftirlaun. Þessir nýju samningar bjóða upp á gengisáhættu, óhóflega vexti og að við munum greiða meira en reiknað er með vegna þess að eignir Landsbankans duga ekki. Þetta þýðir hærri skatta á landsmenn og fleiri greiðsluþrot heimila. Það er ekkert glæsilegt við þennan samning, ekki neitt.

Í ljós hefur komið að lögsaga íslenskra dómstóla er vefengd. Niðurstaða Hæstaréttar Íslands mun ekki vera talin gild nema dómstóll EFTA samþykki það. Eins og sagt hefur verið hafa komið fram vafaatriði varðandi stjórnarskrána sem munu að vísu verða skoðuð í næstu umferð í fjárlaganefnd. Það er gott, en engu að síður er búið að kollvarpa þeim samningum sem Alþingi samþykkti að veita ríkisábyrgð í sumar og snúa þessu máli á hvolf og öllu á hinn versta veg.

Við höfum í sumar fylgst með því hvers vegna það hefur gerst og hvað gerðist. Við vitum að í stað þess að aðstoða Ísland var Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn handrukkari fyrir bresk og hollensk stjórnvöld í þessu máli og hafði ekki döngun í sér til þess að veita Íslendingum þá aðstoð sem hann hafði þó skuldbundið sig til að gera. Við höfum orðið vitni að því hvernig Evrópusambandið hefur krafist þess að Íslendingar gangi frá samkomulagi um þessar Icesave-skuldbindingar ef þeir eigi nokkurn tímann að komast inn í Evrópusambandið og við höfum orðið vitni að því hvernig Norðurlöndin hafa einnig krafist þess að þetta mál verði frágengið.

Athyglisvert er þó í þeirri umræðu allri að aldrei hefur komið fram hvers þeir hafa krafist. Það hefur aldrei komið fram að þeir hafi krafist þess að Íslendingar greiði þetta allt upp, einungis að frá þessu máli væri gengið. Það var gengið frá þessu máli hér í sumar en ríkisstjórninni misfórst að kynna það með þeim hætti sem þurfti.

Annar vinkill á þessu máli sem hefur verið athyglisverður, er núna að koma í ljós og vakti undrun okkar margra hér í upphafi, er að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn talaði alltaf um að skuldir þjóðarbúsins væru ekki neitt til að hafa áhyggjur af vegna þess að eignirnar væru það miklar á móti. Þeir sögðu að við ættum þúsundir milljarða í lífeyrissparnaði. Lífeyrissparnaði? sögðu menn. Já, en þetta er lífeyrissparnaður, ekki eignir þjóðarbúsins sem hægt er að nota í þessu máli. Hvað hefur nú gerst? Ríkisstjórnin hefur stigið fyrsta skrefið í því að þjóðnýta þennan lífeyrissparnað til þess að greiða niður þessar skuldir. Fyrsta skrefið er fólgið í því að knésett heimili og greiðsluþrota einstaklingar geta tekið út séreignarsparnaðinn sinn og notað hann til þess að bjarga sér fyrir horn í nokkra mánuði á meðan ríkið fær nánast 40% af þeirri upphæð í skatta. Ég leyfi mér að fullyrða að þetta er einungis fyrsta skrefið í að opnað verði fyrir úttekt á öllum séreignarsparnaði landsmanna, hvers ríkið muni ná 40% í skatttekjur. Þegar því er lokið, og ekki verður enn þá búið að greiða skuldirnar, verður gengið á röðina og afgangurinn af almenna lífeyrissparnaðinum verður tekinn, eignir lífeyrissjóðanna seldar, almenningur leysir þær til sín og ríkið hirðir 40% til þess að greiða skuldir, m.a. Icesave.

Þjóðarbúið á Íslandi mun að líkindum fara í sama ástand og Japan og við munum búa við engan hagvöxt í jafnvel áratugi vegna gríðarlegra skulda. Eingöngu verður hægt að greiða vextina en höfuðstóllinn mun sitja eftir. Í þessum nýju Icesave-samningum eru hástemmd loforð um að setjast hugsanlega niður til viðræðna ef allt fer á versta veg. Þar eru yfirlýsingar frá ráðherrum sem hafa ekkert lagalegt gildi en ekkert sem hönd á festir sem tryggir að hagur almennings sé ekki fyrir borð borinn í þessu máli.

Þegar búið er að selja eigur lífeyrissjóðanna, eða jafnvel áður, eru náttúruauðlindirnar næstar. Þetta er þróun sem hefur orðið áður um allan heim í löndum sem nú teljast vanþróuð. Þannig byrjar þetta og það endar eins. Þetta hefur hafist, að vísu heitir þetta í dag að vera með veð í orkusölusamningum en það er nákvæmlega það sama og að selja auðlindina í 40 ár. Við skulum gera okkur grein fyrir því hvert við erum komin nú þegar. Þessi niðurstaða er ömurleg. Þetta er niðurstaða staðnaðs og úrkynjaðs stjórnkerfis, staðnaðra og úrkynjaðra stjórnmála og vanhæfrar stjórnsýslu. Ég starfaði í stjórnsýslunni í rúman áratug og veit hvernig fólk er valið þar inn til vinnu. Mjög margt gott og ágætlega hæft fólk fær sín ekki notið vegna þess að flokkastjórnmál ráða í stjórnsýslunni.

Sagan segir okkur að þjóðir komi og fari, þær úrkynjast og leggjast af sem sjálfstæð fyrirbæri. Tilraunin um lýðveldið Ísland hefur varað í 65 ár. Ég leyfi mér að vona að hér sé um meira að ræða en eingöngu tilraun. Ég leyfi mér að vona að Ísland sem lýðveldi og sjálfstæð þjóð muni geta spjarað sig en með þessum samningum mun það ekki verða, því þessir samningar og þær skuldir og sú efnahagslega staða sem Ísland er komið í nú er einfaldlega þannig að það er ekki aftur snúið. Við erum komin í greiðsluþrot þó að það eigi eftir að viðurkenna það. Í hvert einasta skipti sem því er lýst yfir að hér séu að gerast góðir hlutir fellur þetta blessaða lánshæfismat, sem ríkisstjórnin hefur þó bundið trúss sitt við í meira en ár, neðar og neðar. Lánshæfismat Orkuveitu Reykjavíkur er komið í ruslflokk. Hversu langt er þess að bíða að lánshæfismat Landsvirkjunar fari þangað? Eða lánshæfismat íslenska ríkisins? Hvar verðum við þá? Hvers vegna hefur það ekki hækkað eftir að búið var að greiða atkvæði um inngöngu í Evrópusambandið? Hvers vegna hækkaði það ekki þegar Icesave-samningarnir voru frágengnir í sumar? Hvers vegna hækkaði það ekki þegar nýlega var gengið frá Icesave-samningunum?

Aumkunarverðar tilraunir Seðlabankans þann dag til að kaupa íslenskar krónur á markaði til þess að sýna fram á styrkingu á genginu dugðu í tvo daga. Þar var fjármunum enn kastað á glæ til þess að þjóna stjórnmálaflokkum sem voru við völd á Íslandi til þess að sýna aðeins betra andlit.

Ágætu þingmenn, frú forseti. Það er komið nóg af þessari sýndarmennsku á Íslandi og ef við förum ekki að snúa við blaðinu og gera hlutina betur, öðruvísi og heiðarlega, svo ég grípi aftur til þess góða orðs, mun tilraunin um lýðveldið Ísland eingöngu verða og hafa verið tilraun.