138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:50]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir svarið. Ég held að augljóst sé af svari hv. þingmanns að það er eitthvað sem á eftir að skýra í þessu. — Ég vil benda forseta á að klukkan er ekki alveg að fúnkera, það er allt í lagi mín vegna svo sem. — Það þarf að skýra þennan mun og hvernig á því stendur að hann er svo mikill sem raun ber vitni, því það hefur ekki komið neitt fram í sjálfu sér sem hefur gerst í efnahag þjóðarinnar sem ætti að breyta þessu þetta mikið, þ.e. til hins betra alla vega, að við þolum aukið skuldaálag.

Mig langar aðeins að velta öðru upp við hv. þingmann, það eru neyðarlögin sem eru í hættu, ef svo má orða. Það á eftir að láta reyna á þau klárlega eins og fram kom í ræðu hans. Mér leikur forvitni á að vita hvert mat hans er á því hvaða áhrif það hefði ef neyðarlögin yrðu dæmd ógild, ef sagt yrði við okkur að við hefðum ekki mátt setja þessi neyðarlög og það bæri að nema þau úr gildi, hvaða áhrif það hefði.