138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:51]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, það er þetta með neyðarlögin. Ég geri mér nú grein fyrir því að það færi hér allt í eitthvert allsherjaruppnám ef neyðarlögin halda ekki, algjört allsherjaruppnám leyfi ég mér að halda fram. Hversu alvarlegt það yrði þori ég ekki að segja, ég þori kannski ekki að reyna að svara því heldur. Það þyrfti þá einfaldlega að kalla til endurskoðunar allar þær aðgerðir sem gripið hefur verið til undanfarið ár og gagnger endurskoðun og endurskipulagning á allri efnahagsstarfsemi landsins þyrfti að fara fram.

Hvað varðar þær misvísandi tölur sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson nefndi áðan, þá er að mínu viti fyllsta ástæða til að fjárlaganefnd leiti eftir því milli 2. og 3. umr. að fá útskýringar á þeim mismun. Ég leyfi mér að benda á að í sumar þegar við fengum utanaðkomandi álit, utan þessara hefðbundnu stofnana, þ.e. við fengum álit frá Elviru Mendez, dósent við Háskóla Íslands, um lagalegu hliðina á málinu og við fengum álit frá Hagfræðistofnun, þá settu þessi álit málin í nýtt samhengi og gerðu fjárlaganefndarmönnum og þingmönnum miklu betur kleift að taka raunhæfa afstöðu til málsins. Ég held að það sé alveg fyllilega ástæða til að leitað verði eftir því að fá betri útskýringar á þessum mismun hvernig svo sem það yrði gert en það mundi auðvelda okkur framhaldið á þessari vinnu.