138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:03]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég benti á í ræðu minni áðan hafa þingmenn meiri hlutans haldið því fram að það styrki fyrirvarana að setja þá inn í samningana sjálfa en áttuðu sig einhvern veginn ekki á því, að mér virðist, að um leið færðu þeir allt dómsvald og allan ágreining, alla lögsögu til breskra dómstóla og við munum nú þurfa, ef á fyrirvarana reynir, að láta dæma um þá samkvæmt breskum lögum. Það liggur fyrir, og ég held að þingheimi sé það ljóst, að það fór engin efnisleg umræða fram í fjárlaganefnd um Icesave-fyrirvarana eða þær breytingar sem við erum að gera núna. Við sem eigum sæti í minni hlutanum kölluðum eftir því að fá efnislega umræðu, að þingmenn meiri hlutans kæmu fram og lýstu skoðun sinni — þarna voru þingmenn sem voru nýsestir í nefndina, höfðu skipt við þingmenn sem þurftu að bregða sér út á land — en við fengum ekki efnislega umfjöllun, hvað þá um þau álit sem komu frá efnahags- og skattanefnd.

Varðandi upplýsingar um eignasafn Landsbankans höfum við sem í minni hlutanum sitjum ítrekað kallað eftir því að fá sundurliðun á þeim eignum sem eru inni í þrotabúi Landsbankans. Við höfum fengið gróf yfirlit sem gefa enga mynd af því hvernig heimtur verða. Ég vil benda á að Lee Buchheit, einhver fremsti sérfræðingur heims í samningatækni og hefur samið fyrir lönd sem eiga í greiðsluvandræðum, benti á að eitt lægi fyrir, það væri ekki hægt að samþykkja Icesave-skuldbindinguna (Forseti hringir.) fyrr en menn vissu hverjar heimtur yrðu úr þrotabúi Landsbankans.