138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:10]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir spurningarnar. Varðandi Ragnars H. Halls-fyrirvarann benti ég á þá staðreynd að meiri hlutinn treystir sér ekki einu sinni til að fullyrða að það komi til með að reyna á álit EFTA-dómstólsins. Þeir halda því hins vegar fram að það séu líkur á því. Ég tel aftur á móti að það séu afar litlar líkur á því að málið fari fyrir hann vegna þess að EFTA-dómstóllinn á fyrst og fremst að skera úr um ágreining sem snýr að EES-samningnum. Það er ekki miklu flóknara en það. Hann á ekki að tjá sig um landsrétt, um íslenskan rétt, og þegar greitt verður úr þrotabúinu verður það gert samkvæmt íslenskum lögum. Það er góð spurning ef upp rís deila um niðurstöðuna, hver verður þá niðurstaðan?

Eitt liggur fyrir í þessu máli og það er að allur ágreiningur hefur alltaf verið túlkaður Íslendingum í óhag. Íslendingar hafa aldrei fengið notið þess að leysa úr ágreiningi á hlutlausan hátt, hvað þá að þeir hafi fengið að berjast fyrir honum innan samninganefndarinnar. Það er sú tilfinning sem maður hefur og ég held að þetta hafi verið mjög réttmæt spurning hjá Stefáni Má Stefánssyni lagaprófessor.

Svo er hitt sem lýtur að seinni lið spurningarinnar frá hv. þingmanni að það liggur fyrir að Bretar og Hollendingar treysta ekki íslenskum dómstólum, það hefur verið undirliggjandi í öllum málflutningnum. Ef Íslendingar samþykkja þetta frumvarp eru þeir að sjálfsögðu að taka undir með Bretum og Hollendingum. (Forseti hringir.) Það er hið sorglega í þessu máli vegna þess að Íslendingar og íslensk stjórnvöld, ríkisstjórnin hefur aldrei staðið í lappirnar.