138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:20]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Stjórnarliðar, einkum úr hópi Samfylkingar, eiga það mjög til í þessari umræðu að halda því fram að ef við föllumst ekki á afarkosti Breta og Hollendinga, sama hvað þeir biðja um, munum við einangrast í alþjóðasamfélaginu. Lýsingarnar hafa verið hreint ótrúlegar á köflum á því hvað yrði þá yfir okkur látið ganga af þeim ríkjum sem mundu beita sér gegn okkur til að einangra landið. Einn ráðherra talaði um að við yrðum Kúba norðursins og einn af helstu talsmönnum ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum sagði að við yrðum Norður-Kórea vestursins. Svona hafa lýsingarnar verið, eins fáránlegt og það er að halda því fram að ríki verði einangrað og beitt efnahagslegum þvingunum af öðrum vestrænum ríkjum fyrir það eitt að vilja leita réttar síns. Hins vegar er það svo að ríki eiga það til að einangrast ef þau skuldsetja sig um of og sérstaklega þá ríki sem skuldsetja sig í annarri mynt en sinni eigin. Þau ríki verða öðrum háð og hafa ekki lengur efni á því að vera virkir þátttakendur í hinu margumtalaða alþjóðasamfélagi. Þessi ríki lenda öðrum fremur í því að íbúar landsins flytja annað.

Nú birti norska hagstofan í dag, og mbl.is segir frá þessu, nýjar tölur um flutning fólks til Noregs þar sem kemur fram að á þriðja ársfjórðungi þessa árs hafi 1.300 Íslendingar flutt til Noregs. Það eru hvorki meira né minna en 100 Íslendingar í viku, 14 Íslendingar á hverjum einasta degi hafa flutt til Noregs á þessu tímabili. Þetta hlýtur að vera stórkostlegt áhyggjuefni og er það þá ekki enn meira áhyggjuefni að skuldsetja landið að því marki að fólk muni ekki lengur hafa efni á að búa hérna?