138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:27]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að byrja á því að þakka hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni fyrir vandaða og ítarlega yfirferð og samanburð á þessum tveimur málum, annars vegar frá því í sumar og hins vegar því sem núna liggur fyrir. Ég vildi gjarnan spyrja hann þeirrar spurningar með tilliti til þeirra breytinga sem hann hefur nú farið nákvæmlega í, hvort það sé hægt eða æskilegt að reyna við það að breyta því frumvarpi um Icesave sem núna liggur fyrir þinginu og þá hvernig. Við glímdum við hitt frumvarpið með ágætisárangri en miklum erfiðismunum í fleiri, fleiri vikur í sumar. Með tilliti til þess að þá höfðum við bandamenn í stjórnarliðinu, sem virðist ekki vera núna, telur hann einhverjar líkur á því og hvaða liðum í frumvarpinu sem núna liggur fyrir væri þá hægt að breyta til að gera það ásættanlegra fyrir Íslendinga ef einhverjum?