138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:35]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Þegar þingsköpunum var breytt á sínum tíma mótmæltu þingmenn Vinstri grænna því harðlega úr pontu. Þeir hafa í gegnum tíðina staðið í sömu sporum og ég stend nú og mótmælt því að hér væru haldnir kvöldfundir. Kvöldfundir hafa nú verið regla fremur en undantekning að undanförnu. Um leið má benda á að við í fjárlaganefnd höfum fundað á kvöldin og þetta er ekki til marks um þá fjölskylduvænu stefnu sem eitt sinn var boðuð.

Ég tek líka undir með hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni, það er mjög undarlegt að sjá hversu fáir stjórnarþingmenn sýna málinu áhuga. Það voru þeir sem vildu halda kvöldfund og þá væntanlega vegna þess að þeir vildu ræða málið á þeim tíma. Ég get ekki ímyndað mér að það sé nein önnur ástæða þar að baki. Ég ítreka þá ósk okkar framsóknarmanna að fundur standi ekki (Forseti hringir.) fram á kvöld og að við reynum heldur að skapa (Forseti hringir.) fjölskylduvænni og skynsamlegri vinnustað.