138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:38]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegur forseti. Það mál sem við ræðum í dag er í eðli sínu þannig vaxið að allir vildu hafa verið lausir við þessi ósköp. Reyndar veit ég ekki um nokkurn einasta mann sem hefði óskað sér að vera í þeirri stöðu að hafa þetta mál í fanginu eða bera ábyrgð á því með einhverjum hætti, jafnógeðfellt og -ljótt og -vont sem það í eðli sínu er. Rætur þess liggja í þá áttina frá upphafi. Um þetta mál hafa verið haldnar margar langar ræður mánuðum saman á Alþingi og ég veit ekki til þess að enn sem komið er hafi nokkur hv. þingmaður tekið upp hanskann fyrir þá sem komu okkur í þessa stöðu eða þennan Icesave-ósóma allan saman frá upphafi, enda væri það dálítið furðulegt ef menn ætluðu að snúast því til varnar. Deilurnar hafa þess vegna ekki snúist nema að litlu leyti um tilurð málsins eða rætur þess, deilurnar standa fyrst og fremst um lausnina, um það hvernig á að leysa úr vandanum.

Þær breytingar sem urðu á málinu frá því að það kom hér inn í júní í sumar og þangað til að Alþingi afgreiddi það frá sér í lok ágúst eru að mínu mati til þess fallnar að skerpa á málinu frekar en áður og skorið hefur verið úr um mörg þau ágreiningsatriði sem þá voru uppi. Um það verður ekki deilt.

Í fyrsta lagi er öllum vafa eytt um takmörkun á ríkisábyrgðinni. Það var deilt um það í þessum sal og það var ágreiningur um það á milli stjórnarliða og stjórnarandstæðinga hver ábyrgðin væri, hvort hún væri það víðtæk að ná yfir alla upphæðina eða hvort hún félli einfaldlega úr gildi á ákveðnum tíma og þá eftirstöðvar lánsins sömuleiðis ef einhverjar yrðu. Þetta var að mínu mati ljóst frá fyrsta degi og ég sagði það hér í þessum ræðustól og hélt því margsinnis fram að ríkisábyrgðin ætti að sjálfsögðu að ná til allrar skuldbindingarinnar eins og hún var, eins og hún er og verður frá fyrsta degi þegar ábyrgðin verður virk. Að mínu mati hefur ekkert breyst hvað það varðar. Sömuleiðis mátti öllum vera ljóst að eitthvað stæði eftir af greiðslu skuldarinnar og að í lok síðasta greiðsludags yrði málið tekið upp aftur af hálfu ríkjanna þriggja, Íslands, Bretlands og Hollands, og samið um lyktir þess rétt eins og kveðið er á um í lögunum frá því í ágúst. Þetta lá nokkuð skýrt fyrir að mínu viti og ég held að flestir hafi áttað sig á hvað það þýddi. Það var í huga okkar sem afgreiddum málið á endanum, stjórnarmeirihlutans, alveg skýrt og klárt en það er ekki hægt að neita því að mismunandi túlkun þingmanna leiddi til ákveðinnar óvissu í þessu máli sem þurfti að skera úr um.

Nú liggur þetta klárt og kvitt fyrir svo nú ætti enginn að velkjast í nokkrum vafa hvað þetta atriði varðar, ríkisábyrgðin stendur. Hún nær til alls lánsins þar til það hefur verið greitt. Það var alltaf markmiðið að lánið yrði greitt. Það var ekki einhliða yfirlýsing ríkisstjórnar Íslands, stjórnarmeirihlutans eða Alþingis að fella niður einhverjar hugsanlegar eftirstöðvar af láninu eins og margir vildu túlka lögin frá því í ágúst. (Gripið fram í.) Það má því segja að nú þegar hafi verið tekið á því hvernig ætti að leysa þann vanda sem hugsanlega hefði komið upp 2024 ef einhverjar eftirstöðvar hefðu verið þá. Það hefði verið leyft, það liggur alveg klárt fyrir, það er enginn vafi á þessu lengur og við vitum að hverju við göngum hvað þetta varðar.

Sömuleiðis hefur Ísland nú rétt á að lengja lánstímann, þ.e. ef þörf krefur, og ef eitthvað stendur út af á árinu 2024 er heimilt að framlengja lánstímann í fimm ár í senn þar til lánið verður að fullu greitt. Þetta er alveg eins kvitt og klárt og það getur verið, virðulegur forseti.

Í öðru lagi hafa bresk og hollensk stjórnvöld fallist að meginefni til á þá fyrirvara sem Alþingi setti vegna ábyrgðarinnar í sumar, með þeim útfærslum sem fram koma í því lagafrumvarpi sem við erum að fjalla um hér í dag og verður vonandi staðfest hér innan skamms. Þetta var eitt af því sem gerð var krafa um af hálfu Alþingis, þ.e. að breskum og hollenskum stjórnvöldum yrðu kynntir fyrirvararnir, og þau féllust á þá, öðruvísi yrði ríkisábyrgðin ekki virk. Hvernig hugsuðu hv. þingmenn framhald leiksins ef Bretar og Hollendingar hefðu ekki fallist á fyrirvarana? (Gripið fram í: Semja upp á nýtt.) Ætluðu menn þá bara að ganga frá málinu eins og ekkert hefði í skorist? (Gripið fram í.) Ætluðu hv. þingmenn bara að ganga frá því og láta sem ekkert hefði gerst? (REÁ: Semja upp á nýtt.) Menn ætluðu að semja upp á nýtt. Það liggur hér fyrir. Hér liggur fyrir hvernig leyst var úr því máli í sumar vegna þess að Bretar og Hollendingar féllust á meginefni fyrirvaranna, (Gripið fram í.) það voru gerðar ákveðnar breytingar á þeim og þær liggja hérna fyrir í dag. Það var ekki hlaupið frá málinu, eins og menn vilja meina að hefði átt að gera. (Gripið fram í.)

Í þriðja lagi er ítrekað að tillit er tekið til þeirra fordæmalausu aðstæðna sem eru á Íslandi, þeirra aðstæðna sem lánasamningarnir kveða á um og ræddar voru sömuleiðis hér í sumar sem og þau viðmið sem kennd eru við Brussel og eru dagsett 14. nóvember 2008. Um það vitna samningarnir sömuleiðis og þeir viðbótarsamningar sem gerðir hafa verið núna.

Endanlega er staðfest að afsal friðhelgi samkvæmt lánasamningum nær ekki til eigna landsins sem njóta friðhelgi samkvæmt alþjóðasáttmálum og eigna Íslands sem eru okkur nauðsynlegar sem fullvalda ríkis. Um þetta var deilt sömuleiðis í sumar en nú er það komið á hreint.

Yfirlýsing aðila samninganna staðfestir að hvergi verður heldur hróflað við óskoruðum yfirráðum Íslands yfir náttúruauðlindum landsins og ekkert í lánasamningunum hafi þá tilætlun að hafa áhrif á að Ísland missi stjórn á náttúruauðlindum eða skerði rétt Íslendinga til að kveða á um nýtingu og skipan eignarhalds á þeim. Þetta var sömuleiðis ágreiningsatriði í sumar og úr því hefur verið skorið. Núna liggur fyrir hvernig með það verður farið.

Það er fallist á þá efnahagslegu fyrirvara sem Alþingi setti í sumar varðandi greiðslufall, þ.e. að greiðslur miðist við samanlagt 6% af uppsöfnuðum hagvexti frá árinu 2008 til greiðsluárs. Á þetta er fallist, innan þeirra marka eru greiðslur af höfuðstól auk vaxta en þó er gerð sú breyting á að vextir af lánum skulu ætíð greiddir. Það er breyting á málum frá því sem hefur verið, en það er þó ekkert nýtt í þessu máli að vextir yrðu greiddir af þessum lánum. Þetta eru ekki vaxtalaus lán eins og sumir hafa viljað tala og hefur oft mátt ráða af umræðunni. Það er hins vegar nýtt við þetta að tryggt verður að vextir verði ætíð greiddir, jafnvel þótt þeir rúmist ekki innan þessara 6% marka. (Gripið fram í.)

Það þykir hins vegar mjög ólíklegt, virðulegi forseti, samkvæmt þeim sem hafa gefið fjárlaganefnd álit sitt á þessu máli að hagvöxtur á tímabilinu verði það lítill og slakur að á þetta reyni. Nægir í því sambandi að benda á álit Seðlabankans um þetta atriði sem var lagt fyrir fjárlaganefnd fyrir nokkru. Þar kemur m.a. fram að miðað við þann hagvöxt sem Seðlabankinn gerir ráð fyrir að verði á tímabilinu, og miðar þá aðeins við 50% eða minni heimtur á eignum Landsbankans, muni það gerast á fyrstu tveim afborgunarárunum að greiðslur af lánum verði örlítið hærri en greiðsluþakið segir til um. Komi þær aðstæður upp verða vextir greiddir að fullu en einhverjar eftirstöðvar verða af höfuðstól sem þá leiða til þess að lánin verða að fullu greidd árið 2026 í stað 2024. Þetta kemur fram í þeim gögnum sem Seðlabankinn lagði fyrir fjárlaganefnd fyrir örfáum dögum.

Verði heimtur úr eignum Landsbankans meiri en 50% mun það að mati Seðlabankans ekki hafa nein áhrif á afborganir sem auk vaxta verða ætíð innan 6% greiðsluþaksins sem Alþingi hefur ákveðið að verði. Þetta er sömuleiðis álit Seðlabankans sem lagt var fyrir fjárlaganefnd fyrir örfáum dögum, í raun og veru ítrekun á því áliti sem Seðlabankinn lagði fyrir fjárlaganefnd í sumar.

Í frumvarpi þessu er sérstaklega tekið fram að íslenska ríkið lítur svo á að því hafi ekki borið skylda til að ábyrgjast greiðslu lágmarkstryggingar innstæðueigenda, eins og komið hefur fram hérna í dag. Í sameiginlegri yfirlýsingu landanna er reyndar hnykkt á þessu atriði og undirstrikað að Ísland viðurkenni að ekki sé fyrir hendi lagaleg skuldbinding hvað þetta varðar. Eins og fram hefur komið í ræðum hér í dag og á fundum fjárlaganefndar undanfarna daga og víðar hefur talsvert verið rætt um þá áhættu sem getur myndast vegna þess að kröfur á hendur bankanna eru í erlendri mynt, þ.e. gengisáhætta er milli skráðrar tölu sem miðaði við dagsetningu 22. apríl og þess sem gerist í dag. Staða krónunnar ræður því hver skuldbindingin verður á endanum. Það er rétt að taka undir það og vara við því. Það þarf að fylgjast náið með þeirri þróun og það var engin ástæða til að gera lítið úr þessum áhyggjum. Það er áhætta í þessu fólgin og hana ber auðvitað að taka alvarlega eins og önnur varnaðarorð.

Á þessum atriðum er m.a. er tekið í nefndaráliti efnahags- og skattanefndar sem rétt er að taka fullt tillit til. (Gripið fram í.) Besta og reyndar eina vörnin í þessu máli, hv. þingmenn, er að ná sem allra fyrst tökum á íslensku efnahagslífi, að krónan styrkist, verðbólga haldist lág, atvinnuleysi minnki og að stöðugleiki verði hér meiri en verið hefur á undanförnum árum.

Virðulegur forseti. Umræður um þetta mál hafa nú staðið yfir linnulaust í næstum hálft ár, frá því í byrjun júní í sumar. Fá mál, ef nokkur, hafa fengið aðra eins umfjöllun á Alþingi og utan veggja þings, á meðal þjóðarinnar. Um það hafa verið haldin hundruð funda í stjórnkerfinu og tugir ef ekki hundruð gesta hafa verið boðuð á fundi nefnda Alþingis til að velta upp öllum mögulegum flötum málsins. Mér telst svo til að einungis við þá umræðu sem hefur átt sér stað á síðustu dögum vegna þess frumvarps sem við erum að ræða í dag hafi komið u.þ.b. 30 gestir á fundi fjárlaganefndar til að segja álit sitt á málinu, viðra skoðanir sínar til viðræðna um lausn þess. Hér á Alþingi hafa verið haldnar margar og langar ræður um málið og ótal blaðagreinar verið skrifaðar, auk þess sem mikil umfjöllun hefur verið um það í öllum fjölmiðlum nánast allt þetta ár.

Fá mál, ef nokkur, hafa verið studd jafnmiklum og -ítarlegum gögnum og einmitt þetta mál. Mér er í það minnsta sagt af starfsmönnum á þessum vinnustað, á Alþingi, að það sé leitun að máli sem hefur verið stutt jafnmiklum, -ítarlegum og -viðamiklum gögnum og þetta mál var stutt hér í upphafi — og er enn. Ég er reyndar ekki hokinn af þingreynslu og þekki það ekki, en ég veit að ef einhverjir þingmenn vita betur verður það örugglega upplýst á eftir.

Ég hef farið í mjög stuttu máli yfir þau atriði sem ég tel skipta mestu máli varðandi þetta frumvarp sem við erum að ræða, en hef hins vegar látið eiga sig að fara í forsögu málsins eða rekja það allt frá því að Landsbankinn opnaði þessa ólánsreikninga í Bretlandi og Hollandi og til þess dags þegar samningarnir voru gerðir í vor. Ég tel þá sögu ekki málinu til framdráttar en hún er skráð í sögubækurnar eins og hún er og undan henni verður ekki vikist.

Eins og ég sagði í upphafi er þetta ljótt mál að mínu viti sem allir óska sér að hefði aldrei komið til. Ég held að við getum öll verið sammála um það. Icesave-málið er hins vegar í hugum landsmanna táknmynd alls þess versta sem gerðist í efnahagshruninu og þannig verður það um ókomna tíð. Það er því afar mikilvægt að leysa málið svo einhver sómi sé að þótt auðvitað megi færa ágæt rök fyrir því að ósanngjörn mál verði sjaldan leyst með mjög sanngjörnum hætti. Hér er verið að gera það besta úr málinu sem mögulegt er. Þeir sem fengu það í fangið, þeir sem fengu það verkefni að leysa það eru að gera sitt besta í málinu og lengra verður ekki komist að mínu mati.

Það er mín bjargfasta sannfæring að sú lausn sem við erum að ná núna í deilunni við Breta og Hollendinga sé mjög ásættanleg fyrir Ísland. Við hv. þingmenn erum í það minnsta komin óravegu frá því sem lagt var upp með fyrir ári í viðræðum á milli íslenskra stjórnvalda og erlendra. Við erum komin óravegu frá þeim hugmyndum sem voru í gangi á þessum dögum fyrir ári þó að ekki hafi verið kominn samningur á. Það er himinn og haf þar á milli sem betur fer þannig að ég tel að nú sé kominn tími til að við förum að klára þetta mál, það verður ekki farið lengra með það. Það er orðin ásættanleg lending og þingmenn eiga að taka afstöðu til málsins núna, afgreiða þetta út af borðinu og mynda rými fyrir önnur og brýn mál. Það er af nógu að taka, virðulegur forseti.