138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:02]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Björn Valur Gíslason er eini maðurinn sem ég veit til að haldi því fram að eignirnar hafi verið tryggðar í samningunum. Það sem þótti einmitt óvanalegt í þessum óhræsissamningum var að eigur þjóðarinnar voru settar að veði í Icesave-samningunum. Það er einhver sá mikilvægasti fyrirvari sem nokkur þjóð hefur sett.

Hann beindi þeirri spurningu til þingmanna hvað við hefðum viljað gera ef Bretar og Hollendingar hefðu ekki samþykkt fyrirvarana. Nú ætla ég bara að lesa upp úr lögunum sem hann tók þátt í að samþykkja:

„Það er skilyrði fyrir veitingu ríkisábyrgðarinnar að breskum og hollenskum stjórnvöldum verði kynntir þeir fyrirvarar sem eru settir við ábyrgðina samkvæmt lögum þessum og að þau fallist á þá.“

Það er skilyrði fyrir veitingu ríkisábyrgðarinnar. Með öðrum orðum, ef þau fallast ekki á, eins og þau gerðu, þá fellur ríkisábyrgðin úr gildi. Það var einfaldlega ekkert umboð (Forseti hringir.) til þess að semja um nýja fyrirvara.