138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:04]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er ekki þannig mál, hv. þm. Björn Valur Gíslason, að það sé afgreitt eins og úti á sjó, að þetta sé bara afgreitt, og nú bara samþykkjum við þetta og búið. Þetta er miklu stærra mál en svo. Þetta er miklu stærra mál en svo að hægt sé að henda einhverjum háseta í land ef hann er óþægur eða eitthvað slíkt. Þetta er stærra mál en svo. Þetta snertir framtíð þjóðarinnar, þetta snertir framtíð barnanna okkar og þetta er ekki mál sem afgreiða þarf „út af borðinu“, svo ég noti orðalag hv. þingmanns.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann sé ánægður og þá sáttur við álit þessa breska símasérfræðings að bresk og hollensk stjórnvöld vantreysti íslenskum dómstólum. Ég skil málið þannig að það hafi verið sjálfsagt að fallast bara á það. Er hann jafnákafur í að afgreiða þetta út af borðinu og að samþykkja það að íslenskum dómstólum sé ekki treystandi?