138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:07]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held raunar að þetta mál sé í sjálfu sér með öfugum formerkjum. Það eru, að mér virðist, íslensk stjórnvöld sem ekki treysta íslenskum stjórnvöldum vegna þess að svo virðist sem ríkisstjórnin og meirihlutaflokkarnir á Alþingi leggist flatir fyrir þessari kröfu Breta og Hollendinga að þeir muni reka málið fyrir breskum dómstólum. Mér vitanlega hefur enginn sérfræðingur í enskum lögum gefið formlegt álit sitt á þessum nýja samningi, það er verið að gera nýjan samning. Það hefur enginn sérfræðingur í breskum lögum gefið formlegt álit þar sem farið er yfir hverja einustu grein og hún vegin og metin. Það er áhyggjuefni, það er mikið áhyggjuefni, því að það stendur enn þá eftir að ef málið fer fyrir breska dómstóla er það rekið eftir hinum svokölluðu „common law“ þar sem farið er eftir orðalagi, orðanna hljóðan. Eins og ég skil þessa samninga og það sem ég hef lesið af þeim, er það verulegt áhyggjuefni.