138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:09]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson spyr mig að því hvaða leið ég sjái í því ef hagvaxtarforsendur Seðlabanka Íslands bresta eins og þær voru kynntar fyrir fjárlaganefnd fyrir örfáum dögum og voru ítrekun á fyrri umsögn Seðlabankans í sama máli frá því í júlí í sumar.

Í fyrsta lagi telur Seðlabankinn „afar litlar“ eins og þeir segja sjálfir, líkur á að forsendur breytist, og þeir telja „mjög ólíklegt“ að heimtur úr eignum Landsbankans og þær forsendur sem Seðlabankinn gefur sér að öðru leyti muni leiða til þess að Íslendingar geti ekki staðið við skuldbindingar fyrir það fyrsta. Verði það ekki, verða auðvitað teknar upp viðræður við lánveitendur um hvernig við förum með málið, að sjálfsögðu. Það segir sig alveg sjálft og það er gert ráð fyrir því.