138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:56]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir snaggaralegt svar. Það er mjög gott þegar hægt er að svara með þessum hætti og ljóst að í hans huga leikur enginn vafi á því hvað hér er um að ræða.

Nú er staðan sú að við erum í raun komin með þriðju útgáfuna af þessum samningi eða afgreiðslu á Icesave-málinu inn í þingið, og spurningar eru uppi um það hvort þessi útgáfa sé skást eða hreinlega verst af þeim þremur sem við höfum séð í þinginu. Að mínu mati er hún litlu skárri en sú sem fyrst var lögð fyrir þingið.

Vinnubrögð í þessu máli hafa verið mikið til umræðu og mig langar því að skjóta annarri spurningu að hv. þingmanni sem ég veit að hann verður jafnfljótur að svara og með jafnsnaggaralegum hætti. Kannast hann við að þau vinnubrögð sem viðhöfð voru í fjárlaganefnd, að gera í sjálfu sér ekkert með þau gögn sem bárust nefndinni frá t.d. efnahags- og skattanefnd, fjalla ekki um afstöðu þeirra aðila sem komu fyrir nefndina, kalla t.d. ekki á eða að hafa Ragnar Hall með í ráðum varðandi þann fyrirvara sem gjarnan er kenndur við hann, (Gripið fram í.) kalla ekki á Sigurð Líndal varðandi stjórnarskrána, svo dæmi sé tekið, eru þetta vinnubrögð sem hafa þekkst lengi í þinginu eða er þetta eitthvað nýtt, hv. þingmaður?