138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:58]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Nei, ég kannast ekki við vinnubrögð af þessum toga. Einn af þeim sem ekki fékkst kallaður fyrir nefndina er fyrrverandi utanríkisráðherra, sem hefur lýst skoðun sinni á málinu og er sú sem tefldi fram þingsályktunartillögunni hér í upphafi. Ég er því sammála hv. þingmanni, eins og ég skil hann, að það er mjög ámælisvert verklag sem við erum að verða vitni að og merkileg staðreynd að menn skuli hafa látið við það sitja að fá nokkra gesti en taka málið aldrei til efnislegrar umfjöllunar og ræða ekki um umsagnir sem nefndinni bárust.

Reyndar er auðvelt að geta sér til um hvaða ástæður liggja þar að baki að ekki var rætt um umsagnir efnahags- og skattanefndar vegna þess að þar hafði ríkisstjórnin klofnað og það var enginn áhugi á því í fjárlaganefnd að taka það til skoðunar eða gefa umræðu um það eitthvert svigrúm.

Þetta mál í heild sinni er samt sem áður ekki komið í þessa stöðu vegna slælegra vinnubragða fjárlaganefndar heldur ríkisstjórnarinnar. Ríkisstjórnin ber ábyrgð á þeim búningi sem málið er komið í. Ríkisstjórnin skrifaði undir Icesave-samninginn í júní í andstöðu við vilja þingsins. Menn mega ekki gleyma því að núverandi ríkisstjórn lofaði Bretum og Hollendingum ákveðinni niðurstöðu sem hún hafði ekki meiri hluta fyrir á þinginu. Auðvitað setur það okkur Íslendinga í ákveðna stöðu gagnvart umheiminum þegar út spyrst að ríkisstjórn Íslands sé búin að gera samkomulag. Hún var gerð afturreka með þá niðurstöðu af þinginu en í annað sinn kemur ríkisstjórnin nú með mál sem enginn vissa er fyrir að meiri hluti sé fyrir á þinginu. Það er von að menn segi úti í heimi að það skipti máli fyrir okkur Íslendinga að fara að (Forseti hringir.) fá einhvern botn í málið vegna þess að svo illa hefur ríkisstjórnin haldið á málinu að allur umheimurinn er farinn að klóra sér í hausnum.