138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:00]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir afar góða ræðu þar sem farið var yfir málið á mjög yfirgripsmikinn hátt. Það eru þó nokkur atriði sem ég hefði áhuga á að heyra nánar útlistuð, ýmislegt sem vakti forvitni mína.

Aðrir flokkar, þ.e. stjórnarflokkarnir, hafa mikið talað um minnisblað þar sem fjallað var um vexti upp á 6,7%. Getur hv. þingmaður, formaður Sjálfstæðisflokksins, útskýrt fyrir mér hvort til hafi staðið á einhverjum tímapunkti að semja um slíka vexti? Og hvort ekki sé rétt munað hjá mér að þessir vextir hafi verið reiknaðir út frá viðmiðunarvöxtum OECD og séu í raun hinir sömu og 5,6% vextirnir sem síðar voru samþykktir vegna þess að þessir OECD-vextir höfðu lækkað sem því nam? Því náðist í rauninni enginn árangur, engin breyting frá þessu minnisblaði. Eina breytingin var sú að viðmiðunarvextirnir sem reiknað var út frá breyttust.

Einnig þætti mér forvitnilegt að heyra hv. þm. Bjarna Benediktsson lýsa því fyrir mér í ljósi reynslu þingmannsins af samstarfi með Samfylkingunni, í vinnu við þetta mál á sínum tíma, Icesave-málið þegar það kom upp, hvort hæstv. fjármálaráðherra og félagar hans í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði geti vænst þess þegar fram líða stundir að Samfylkingin taki fulla ábyrgð á lokum þessa máls með Vinstri grænum og hæstv. fjármálaráðherra og standi með honum alla leið, hvort það sé í samræmi við reynslu hv. þingmanns af samstarfi við Samfylkinguna í málinu.