138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:47]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Jóni Gunnarssyni fyrir þetta innlegg því ég held að málið sé einmitt þannig vaxið að mikilvægt sé að þjóðin öll fylgist vel með þeirri umræðu sem hér fer fram. Því held ég að forseti ætti vinsamlegast að athuga það mjög vandlega fyrir framhald þessarar umræðu í það minnsta — ef ekki að fresta henni hreinlega og halda áfram síðar — að þannig verði gengið frá málum að hægt sé að fylgjast með umræðunum hér, því það er ekki síður mikilvægt fyrir þjóðina að sjá hverjir taka þátt í umræðunni og hverjir ekki, ég held að það sé í sjálfu sér líka mjög athyglisvert.

Ég vil í upphafi máls míns óska þess að forseti reyni að sjá til þess að a.m.k. einn ráðherra verði viðstaddur umræðuna, ég mun nú samt halda áfram ræðu minni, ég mun ekki leggjast í dvala, en það væri hins vegar mjög ákjósanlegt, frú forseti.

Í þessari umræðu hefur verið farið yfir hlutina fram og til baka, ýmsum málum hefur verið velt upp. Ég ætla að haga ræðu minni þannig að ég ætla að byrja á því að renna aðeins í gegnum þau nefndarálit sem liggja fyrir, bæði nefndarálit fjárlaganefndar og efnahags- og skattanefndar og fara síðan aðeins yfir einstaka þætti sem mér finnast standa upp úr.

Í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar er löng upptalning á fólki sem hefur komið fyrir nefndina, hins vegar vantar alveg að fram komi hvort eitthvað hafi verið gert með það sem þetta ágæta fólk hafði fram að færa eða hvernig unnið hafi verið úr því. Eftir því sem stjórnarandstöðuþingmenn í fjárlaganefnd hafa sagt hér, hefur ekki verið farið neitt nánar yfir það heldur eingöngu hlustað á þessa aðila. Því má velta fyrir sér hvort þetta séu nú skynsamleg skilaboð að senda því ágæta fólki sem hefur komið fyrir nefndir þingsins að ekkert sé gert með álit þeirra.

Ég vek athygli á því að hér stendur, með leyfi forseta:

„Þá tók Nigel Ward lögfræðingur þátt í símafundi.“

Ég minntist á það fyrr í kvöld að mér fyndist það mjög undarlegt að láta það duga að fá sérfræðiálit í gegnum síma í stað þess að gefa tækifæri til þess að fara mjög faglega yfir þennan þátt frumvarpsins og samningsins sem við erum með í höndunum og fá fullbúið sérfræðiálit, því málið er nú ekki neitt smámál.

Á bls. 2 í áliti meiri hlutans stendur, með leyfi frú forseta:

„Þar sem bresk og hollensk stjórnvöld voru ekki reiðubúin að fallast á fyrirvara Alþingis að öllu leyti ákvað ríkisstjórnin að undangengnum viðræðum að gera þrjá viðaukasamninga og samrýma að mestu leyti efni lánasamninganna og þeirra fyrirvara sem koma fram í 1.–4. gr. laga nr. 96/2009 og leggja þá fyrir Alþingi til umfjöllunar og afgreiðslu.“

Ég verð að segja að mér finnst framkvæmdarvaldið hafa tekið sér nokkuð mikið vald með þessu. Mér finnst framkvæmdarvaldið í rauninni hafa gengið fram hjá og virt að vettugi það hlutverk sem Alþingi fól því með þeirri samþykkt sem gerð var hér í ágúst, þar sem framkvæmdarvaldinu var falið að kynna þá niðurstöðu fyrir Bretum og Hollendingum eða fyrir meintum samningsaðilum sem ákvörðun Alþingis. Ég leit ekki svo á og lít ekki svo á að ríkisstjórninni hafi verið heimilt að semja um þau atriði. Ef samningsaðilar okkar, Bretar og Hollendingar, höfðu eitthvað við það að athuga sem hið íslenska Alþingi samþykkti, löggjafarsamkoman sem er að ég best veit æðri framkvæmdarvaldinu, ef þeir hafa eitthvað við það að athuga, þá hefði vitanlega þurft að byrja upp á nýtt að semja við þá eða þeir hefðu einfaldlega getað óskað eftir því að fara með málið fyrir dóm, sem ég held að hefði verið mjög ákjósanlegt. Það er hins vegar ljóst af viðbrögðum Breta og Hollendinga að þær þjóðir höfðu ekki áhuga á að fara með málið fyrir dóm, ég kem nú síðar að því varðandi íslenska dómstóla og allar þær hörmungar. En þetta er að mínu viti dæmi um það hvernig framkvæmdarvaldið hefur tekið sér leyfi eða já, túlkað það þannig að ekki þurfi að fara eftir því sem Alþingi hefur sagt og gert.

Hér eru talin upp þessi svokölluðu Brussel-viðmið. Hjá öðrum þingmönnum hefur komið fram að þau virðast hafa verið orðin aukreitis í öllu þessu. Síðan er hér á bls. 3 talað um yfirlýsingu fjármálaráðherra landanna þriggja. Nú ætla ég ekki að gera lítið úr fjármálaráðherrunum, ég vil taka það skýrt fram, ég vil alls ekki gera lítið úr þeim eða vinnu þeirra eða vilja í þessu máli. Ég vil hins vegar segja það að í ljósi þess að um þá samninga sem við erum með hér fyrir framan okkur gilda bresk lög og sá málarekstur sem kann að verða verður rekinn fyrir breskum dómstólum, þá held ég því miður að yfirlýsing sem þessi hafi ekkert vægi, hafi bara ekkert vægi og ekkert gildi. Hún hefur hugsanlega gildi meðal stjórnmálamannanna sem komu að málinu og sömdu um það. Nú kann að vera einhvers konar — ég er að reyna að finna orð sem passar inn í þetta — léttir fyrir þá að hafa komið þessu frá sér. Hins vegar verð ég að segja að vegna þess hvernig þessu háttar með samningana, er það ekki traustvekjandi að við skulum þurfa að gefa út svona yfirlýsingu. Í rauninni veikir það samningana að mínu viti, að reynt sé að klóra yfir málið með yfirlýsingunni, í stað þess að einbeita sér að því sem mestu skiptir, sem eru samningarnir sjálfir og sú ríkisábyrgð sem Ísland ætlar að taka sér á hendur.

Í þessari yfirlýsingu koma fram góðir hlutir og allt í lagi með það, en eins og ég sagði áðan, þá held ég að það sé klárlega ekkert að marka þetta þegar komið er inn í breskan dómsal.

Þá ætla ég aðeins að fara í álit efnahags- og skattanefndar, en í nefndinni komu fram fjögur álit. Mér þætti gaman að fá upplýsingar um það hér síðar hvort það hafi gerst áður, alla vega í seinni tíð, að fjögur álit komi um eitt mál úr nefnd þar sem tveir flokkar eru í ríkisstjórn. Það er ekkert óalgengt að einhver smááherslumunur sé hjá minni hlutanum, en það er mjög merkilegt að álitin skuli vera fjögur, ekki síst í svo stóru máli. Það sem er nú enn merkilegra að mínu viti er að í áliti 2. minni hluta efnahags- og skattanefndar er mjög hörð gagnrýni á allt þetta mál, á málahaldið, hvernig haldið hefur verið á málinu og líka þær upplýsingar sem lagðar hafa verið fyrir nefndina.

Hér stendur, með leyfi frú forseta:

„Aðeins eitt þróað hagkerfi er með hærra skuldahlutfall hins opinbera en það er Japan. Lítill hagvöxtur í Japan undanfarna tvo áratugi hefur að hluta verið rakinn til mikillar skuldsetningar hins opinbera. Það eru því líkur á því að mikil skuldsetning hins opinbera hér á landi muni draga úr hagvexti á næstu árum. Vaxi hagkerfið ekki hraðar en sem nemur vexti skuldanna er skuldsetning þjóðarbúsins ekki lengur sjálfbær. Ósjálfbærni skulda mun óhjákvæmilega leiða til greiðslufalls, en þá þurfa íslensk stjórnvöld að biðja kröfuhafa um hagstæðari endurfjármögnun á skuldum hins opinbera, þ.e. með lægri vöxtum og lengingu lánstímans.“

Þetta eru ekki varnaðarorð sem fundin eru upp hjá þeim hv. þingmönnum sem þetta skrifa, heldur eru þeir einfaldlega að vitna í söguna og reyna að draga lærdóm af sögunni. Það mætti hv. ríkisstjórn líka gera.

Þá er farið hér aðeins yfir skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Í sjálfu sér held ég að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og þáttur hans hér á Íslandi á síðustu mánuðum eða frá því að hann kom hingað sé rannsóknarinnar virði. Það þarf að rannsaka Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, vinnubrögð hans og hvernig hann kemur fram. Það þarf að rannsaka hvernig einstakar þjóðir geta beitt þessum sjóði fyrir sig sem innheimtu- og rukkunarapparati. Hér stendur, með leyfi forseta:

„Í nóvember 2008 mat AGS að 240% skuldahlutfall væri „augljóslega óviðráðanlegt“ (clearly unsustainable). Ári síðar telur sjóðurinn að 310% hlutfall sé viðráðanlegt. Þessi mótsögn í mati sjóðsins er athyglisverð í ljósi þess að íslenska ríkið gæti ekki ábyrgst lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu ef skuldaþolsmörkin frá því í nóvember 2008 héldu og væru enn 240%. Það er ekki hægt að útskýra þessa stefnubreytingu AGS nema með þeim hætti að Bretar og Hollendingar hafi beitt pólitískum þrýstingi í stjórn AGS til að tryggja að íslenska ríkið taki á sig Icesave-skuldbindingarnar.“

Er þetta ekki í raun stóra málið? Er þetta ekki stóra myndin sem við erum sífellt að átta okkur betur á að er raunveruleikinn? Þjóðir Evrópusambandsins með Breta og Hollendinga í fararbroddi hafa beitt þessari alþjóðlegu stofnun fyrir sig vegna nokkurra atriða, m.a. til að ná til baka þeim fjármunum sem þær sjálfar kusu að greiða innstæðueigendum. Þær kusu að greiða meira heldur en kveður á um í evrópsku tilskipuninni og ekki síst kusu þær að beita því fyrir sig að Ísland hefur nú til allrar óhamingju ákveðið að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Með því að ganga þá leið og beita sjóðnum fyrir sig með þessum hætti er hægt að setja íslensk stjórnvöld upp við vegg, því svo mikill er ákafi þeirra í að ganga í Evrópusambandið að þeir sáu sér leik á borði með að króa þjóðina af úti í horni og hóta henni öllu illu. Það er nú einfaldlega þannig að á bak við þessar innheimtuaðgerðir er Evrópusambandið með Hollendinga og Breta í fararbroddi.

Í lokaorðum álits þessara ágætu hv. þingmanna Lilju Mósesdóttur og Ögmundar Jónassonar stendur, frú forseti:

„Við sjáum ástæðu til að vekja athygli á mikilli skuldsetningu þjóðarbúsins og hins opinbera í ljósi þess að draga þarf verulega úr einkaneyslu og samneyslu á næstu árum til að þjóðin geti staðið undir greiðslubyrðinni.“

Ég vil meina, frú forseti, að þarna bendi þessir hv. þingmenn á það að til þess að standa undir þeirri greiðslubyrði sem mun hljótast af þessu samkomulagi á næstu árum og áratugum munum við horfa fram á frekari samdrátt í velferðarkerfinu og frekari samdrátt í raun öllu sem við tökum okkur fyrir hendur á Íslandi, því að við munum þurfa að standa skil á þessu samkvæmt þeim samningum sem hér eru til umfjöllunar.

Hér er einnig álit 3. minni hluta efnahags- og skattanefndar sem hv. þm. Þór Saari skrifar undir og er mjög í takt við álit þeirra tveggja hv. þingmanna sem ég nefndi áðan. Þar er mjög varað við og færð góð rök fyrir því að nánast útilokað er og óréttlátt að íslensk þjóð taki þetta á sig. Í þessu áliti er m.a. farið yfir greiðslur af Icesave-lánunum og það að þær eru í erlendri mynt.

Hér ætla ég aðeins að staldra við, því fyrr í kvöld hefur komið fram að samkvæmt lögum um innstæðutryggingarsjóðinn er heimilt eða í rauninni ber, eins og ég skil það, að greiða þessar tryggingar í íslenskum krónum. Það mun skipta töluvert miklu máli þegar á hólminn er komið hvort við greiðum af þessu í íslenskum krónum eða erlendri mynt og það er nákvæmlega það sem hv. þingmaður bendir á í sínu áliti að sé nánast óframkvæmanlegt, og ekkert nánast, það er óframkvæmanlegt að standa að málum með þeim hætti.

Með leyfi forseta, ætla ég að lesa upp úr 9. gr. laga um innstæðutryggingar, þar stendur m.a.:

„Ávallt skal heimilt að endurgreiða andvirði innstæðu, verðbréfa eða reiðufjár í íslenskum krónum, óháð því hvort það hefur í öndverðu verið í annarri mynt.“

Ég vil meina að við höfum ekki haldið þessu til streitu, við gáfum þetta eftir. Við gáfum þetta eftir þó að skýrt væri í þeim lögum sem ég vitnaði í áðan að svona ætti að gera þetta. Ég ætla bara að viðurkenna það að ég hafði ekki tíma til þess að leita að því en ég velti því fyrir mér hvort það standist að veita ríkisábyrgð með þessum hætti ef lögin standa svona.

Hv. þm. Þór Saari fer í áliti sínu mjög vandlega yfir vöruskiptajöfnuðinn eða útflutningstekjurnar og byggir greiningu sína m.a. á söguskoðun og staðreyndaskoðun, frú forseti. Þingmaðurinn hefur skoðað tölulegar staðreyndir um innflutning og útflutning á Íslandi og kemst að þeirri niðurstöðu að þær tölur sem notaðar eru hér við útreikning og mat á því hvort við ráðum við þetta gangi ekki upp, gangi engan veginn upp, þær séu langt frá því að standast. Þetta er enn ein sönnun þess að höndum er kastað til verka varðandi þessa vinnu, sem er sorglegt því að ég held að við höfum sjaldan fengist við stærra mál hér í þinginu.

Þá ætla ég aðeins að nefna hér álit frá 4. minni hluta efnahags- og skattanefndar. Þetta hljómar nú allt hálfótrúlega en það er samt þannig að hér eru fjögur álit. Það er merkilegt að þau skuli ekki vera níu, ég held að níu séu í nefndinni, en það er annað mál. Hér er rætt um breytingar, m.a. á efnahagslegu fyrirvörunum og það eru ekkert litlar breytingar sem þar um ræðir og sorglegt að sjá og heyra hversu einbeittir stjórnarliðar eru í því að segja að þessi samningur sem við höfum sé betri eða góður samningur þrátt fyrir að öll gögn bendi til hins gagnstæða.

Af nógu er að taka í álitunum, eins og ég sagði. Hér er t.d. bent á að öll áhættan í samningnum liggur enn hjá Íslendingum, áhættan sem fylgir því að gera þennan samning er hjá okkur en ekki Bretum og Hollendingum. Það er umhugsunarefni hvernig Íslendingar eða íslensk stjórnvöld geta skrifað upp á samning sem einhliða inniheldur áhættu fyrir íslenska þjóð en ekki erlendu aðilana.

Hér hefur töluvert verið rætt um árið 2024 þar sem í þeim fyrirvörum og þeirri ábyrgð sem samþykkt var í ágúst stóð skýrum stöfum að 5. júní 2024 félli ábyrgðin niður. Því hefur verið haldið fram hér að það stæði meira, að það yrði að tala saman, þannig að ég fór og skoðaði betur þessi mál nú áðan. Í 3. gr. í lögunum sem voru samþykkt í ágúst um efnahagsleg viðmið er rætt um og það skýrt hvaða viðmið ríkisábyrgðin tekur varðandi efnahagslega þáttinn.

Síðan kemur fram í lok þeirrar setningar, ég ætla bara að lesa það, með leyfi forseta:

„Greiðsluskylda lánasamninganna skal aldrei vera meiri en hámark ríkisábyrgðar, sbr. 3. mgr.“ — Hún skal aldrei verða meiri en kemur fram hér framar varðandi greiðslugetuna. — „Nú virðist á einhverjum tíma stefna í að lánsfjárhæðin ásamt vöxtum verði ekki að fullu greidd í lok lánstímans vegna hinna efnahagslegu viðmiða og skulu aðilar lánasamninganna þá tímanlega eiga með sér viðræður um meðferð málsins og áhrif þess á samningana og skuldbindingar Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.“

Þetta er hægt að lesa allt á netinu og finna þennan texta.

Þessi texti segir hins vegar eingöngu það að hið svokallaða teboð, sem hefur stundum verið rætt hér, að fara í teboð, að nú eru það Íslendingar sem bjóða til þess. Bretar og Hollendingar bjóða ekki til þess, boltinn er hjá okkur. (Gripið fram í.) Það er nefnilega málið, þeir ætla líka að hafa af okkur te.

Það er alveg ljóst að ábyrgðin átti að falla niður 2024 en nú hafa samningamenn eða ríkisstjórnin ákveðið að það sé of vel í lagt og við eigum að borga þetta út í hið óendanlega, sem er afar sorglegt því auðvitað átti ríkisstjórnin að standa í lappirnar og standa fast á sínu og virða vilja Alþingis.

Við höfum hér fleiri nefndarálit þar sem farið er yfir þetta stóra mál. Hér er ég með álit frá 2. minni hluta fjárlaganefndar, þar voru sem sagt þrír minni hlutar, þetta er mjög skemmtilegt allt saman. Það er bara svona þegar stórt mál er í gangi.

Hér segir á bls. 10, með leyfi forseta:

„Í umræðunni um Icesave hafa ýmsar fullyrðingar komið fram sem standast ekki nánari skoðun. Eru þær allar því marki brenndar að ef Íslendingar samþykkja ekki að greiða Icesave-samningana muni eitthvað hræðilegt gerast.“

Þessu hefur verið haldið að okkur frá því í sumar, það er alltaf verið að spá dómsdegi ef við gerum ekki eins og Bretar og Hollendingar, eins og Evrópusambandið er að kúga okkur til að gera. Það er alltaf verið að spá dómsdegi. Það hefur hins vegar í sjálfu sér ekki gerst enn þá og mun ekki gerast því að nú hefur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lýst því yfir að þessi mál séu ótengd og við höfum aðgang að þessum fjármunum. Norðurlöndin virðast vera komin á svipað ról.

Í dag var fundur í norska Stórþinginu þar sem m.a. var fjallað um mál tengd Evrópu og þar komu málefni Íslands upp. Ég ætla ekki að lesa nákvæmlega hvað þar fór fram en þar var m.a. rætt um lán til Íslands og þá umfjöllun sem hafi orðið um orð framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Norðmanna. Utanríkisráðherra Norðmanna sagði í þinginu að lánið til Íslands hafi verið klárt síðan 28. október. Ég vil benda þingmönnum á að þeir hafa allir fengið þennan tölvupóst sem ég fékk og ég hvet þá til að lesa hann.

Hér stendur að lánapakkinn til Íslands hafi verið klár þegar Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hélt stjórnarfund sinn 28. október, þannig að lánin til Íslands liggja til greiðslu. Hins vegar virðist sem ríkisstjórn Íslands sé ekki að sækja þessa fjármuni. Nú, ef við þurfum ekki á þeim að halda er það vitanlega afar gott en þá er væntanlega komin enn frekari ástæða til að taka sér nægan tíma í þetta Icesave-mál því að það virðist núna enn ein meint hindrun — það voru aldrei neinar hindranir, þetta er allt blekking. Þingið og þjóðin hafa verið blekkt með því að einhverjar hindranir væru í þessu. Það eina sem hangir á spýtunni að mínu viti er það að Bretar og Hollendingar vilja fá peningana sína aftur, peninga sem þeir ákváðu upp á sitt einsdæmi að setja út til þeirra sem áttu inneignir á þessum reikningum og sú staðreynd að þeir sjá sér færi á að nota stöðu Íslands út af umsókn um aðild að Evrópusambandinu til að ná fram árangri í því.

Það verður ekki of oft sagt að enn hefur ekki verið sýnt fram á að okkur beri lagaleg skylda til að taka á okkur allar þessar byrðar. Hér hefur aðeins verið rætt um hvað það þýðir ef við borgum ekki og förum með málið fyrir dómstóla eða ef við verðum dæmd til að greiða. Ég vil endurtaka það sem ég hef oft sagt hér í þessum ræðustól og segi það einu sinni enn, að ég sé ekki muninn á því að láta dæma okkur til að borga alla þessa milljarða, muninn á því að gera það eða að samþykkja þann samning sem nú liggur fyrir, því að hann gerir nákvæmlega það sama. Hann er til þess gerður að við borgum alla upphæðina á endanum. Það munu börnin okkar gera, það mun framtíðin þurfa að gera. Alþingi Íslendinga getur ekki látið slíkt fram hjá sér fara, það er algjörlega útilokað.

Í áliti 3. minni hluta fjárlaganefndar er töluvert farið yfir hvernig vinnu var háttað í fjárlaganefnd varðandi þetta mál. Miðað við þær upplýsingar og það sem þar kemur fram er vinnubrögðum verulega ábótavant. Eins og ég kom að hér fyrr í ræðu minni hefur ekki verið mikið gert með þær athugasemdir og það sem þessir aðilar höfðu fram að færa á fundum nefndarinnar.

Mér þótti merkilegt að heyra það áðan að Ragnar Hall, sem eitt ákvæðanna er kennt við, hafi ekki gefið álit sitt á þessu. Það getur svo sem verið eðlileg skýring á því en ef ég hefði verið í þessu hefði ég gengið mjög fast eftir því, það var nú hann sem benti á þetta og þetta er eitt veigamesta atriðið í öllum samningnum. Þess vegna er með ólíkindum að það skuli ekki hafa verið skoðað sérstaklega, í raun með stækkunargleri.

Í raun er allt á sömu bókina lært í þessum álitum nema áliti meiri hlutans, dregnar eru upp lýsingar á því hvað mögulega geti gerst og hver staðan verður ef ákveðnir hlutir gerast.

Eitt er líka svolítið sérstakt við þetta í ljósi þess, eins og hér hefur komið fram, að fyrrverandi utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar sagði ákveðna hluti í sjónvarpsviðtali sem gefa enn frekar til kynna að við séum á rangri leið með þennan samning og mjög áhugavert hefði verið ef ráðherrann fyrrverandi hefði tjáð sig enn frekar um þetta. Miðað við það sem fram kom í viðtalinu er hún eðlilega mjög sár og svekkt yfir því hvernig Bretar og Hollendingar hafa komið fram við okkur.

Síðan er eitt atriði sem ekki hefur fengið mikla umfjöllun hér í dag og það er grein eftir einn okkar helsta fræðimann í stjórnarskrá Íslands og lögum tengdum henni. Í grein í Fréttablaðinu í dag dregur Sigurður Líndal upp mynd sem mjög mikilvægt er að skoða. Á fundi formanna þingflokka í dag lögðum við stjórnarandstöðufulltrúarnir til að þessi ábending lagaprófessorsins Sigurðar Líndals yrði tekin til sérstakrar skoðunar í fjárlaganefnd. Ef einhver spurning er um það hvort Alþingi er að brjóta stjórnarskrána, verður að skoða það mjög nákvæmlega. Ekki þarf að fresta umræðunni vegna þessa. Ég held að mikilvægt sé að fara fram á það helst strax á morgun að Sigurður og hugsanlega fleiri taki þetta mál til vandlegrar skoðunar og skili áliti eða mæti fyrir fjárlaganefnd eftir helgi þar sem farið verði yfir málið. Mig langar, með leyfi forseta, að vitna í grein Sigurðar, en þar segir:

„Merkilegt má heita að í þeirri miklu umræðu sem fram hefur farið virðist ekkert hafa verið fjallað um hversu langt heimildir löggjafans ná til að skuldbinda íslenska ríkið (og þá um leið þjóðina) með þessum hætti — hvort ekki sé óhjákvæmilegt að setja slíkum skuldbindingum, sem allt bendir til að verði mjög þungbærar, einhver takmörk eins og leitast var við að gera í lögum nr. 96/2009. — Og þá hlýtur stjórnarskráin að koma til skoðunar. Þar er ekki tekið berum orðum á slíkum álitamálum. Í 21. gr. segir að samþykki Alþingis þurfi til breytinga á stjórnarhögum ríkisins og í 40. gr. að ekki megi taka lán er skuldbindi ríkið nema samkvæmt lagaheimild.“

Svo, frú forseti, segir hér síðar:

„Með frumvarpi því sem nú bíður afgreiðslu liggur vissulega fyrir lagaheimild, en verður ekki að gera þá kröfu að hún sé þannig úr garði gerð að skuldbindingum séu sett skýr takmörk og stofni þannig fullveldi ríkisins ekki í hættu? “

Þetta held ég að hv. fjárlaganefnd ætti að taka til skoðunar og fá í það minnsta Sigurð Líndal til þess að skýra hvað hann á við með þessu og velta því vandlega upp hvort hugsanlega sé verið að brjóta stjórnarskrá með þessari samþykkt.

Frú forseti. Þegar ég gáði á mælendaskrána áðan voru nítján á henni, þar af fimmtán stjórnarandstöðuþingmenn og þá fjórir stjórnarliðar. Nú sé ég að þrír stjórnarliðar eru í þingsalnum og þakka ég þeim fyrir að halda það út að vera hér, en ég vil vekja athygli á því að það voru 27 stjórnarþingmenn sem ákváðu að hafa kvöldfund og ég skyldi þá ætla að þeim þætti svo gaman í vinnunni að þeir væru hér allir í dag, en því er nú ekki að skipta. Vera kann að einhverjir séu á skrifstofum sínum að horfa, en ég hefði gjarnan viljað sjá þá hér í þingsalnum fyrst þeir höfðu svona mikinn áhuga á því að hafa kvöldfund. Ég vil taka skýrt fram að ég geri ekki athugasemd við að hæstv. fjármálaráðherra sé ekki hér, hann lét vita af því að hann þyrfti að fara, en ég hef áður óskað eftir því að forsætisráðherra væri hér viðstödd þessa umræðu að einhverju leyti, en hún hefur ekki sést. Þannig að ég lýsi (Gripið fram í.) hér með eftir forsætisráðherra, (Gripið fram í.) bara þannig að það komist á — já, nema hún hafi horfið bak við þil.

Hér í dag hefur verið rætt um þau átök sem eiga sér stað í samfélaginu út af þessu máli. Hv. þm. Bjarni Benediktsson fór ágætlega yfir það að þau átök eru eiginlega til komin vegna þess að hluti þingsins telur að stjórnin sé ekki að gæta hagsmuna þjóðarinnar. Í fyrsta lagi er sorglegt að minni og meiri hluti Alþingis skuli vera að slást í þessu stóra máli, en það er líka sorglegt að sjá að innan ríkisstjórnarinnar hafa menn verið að slást í þessu stóra máli. Í þessu máli tel ég að við eigum einn sameiginlegan óvin og það er ótrúlegt að við skulum ekki ná að sameina okkur gegn honum, sá óvinur er að mínu viti Evrópusambandið og þær þjóðir sem þar fara fremst í flokki, sem eru Bretar og Hollendingar. Við eigum að berjast við þá en ekki innbyrðis.

Af hverju erum við í þessari stöðu? Ég fór aðeins yfir það hér fyrr í kvöld að ég tel tvö meginatriði gera það að verkum að við virðumst ætla að taka á okkur þessar skuldbindingar, þessar ósanngjörnu kröfur og þá kúgun sem við verðum fyrir af hálfu Evrópuríkjanna. Hér inn í vil ég skjóta því sem ég gleymdi að nefna fyrr í kvöld, að samkvæmt Evróputilskipuninni er ekkert sem segir að við eigum að borga þetta, bara til að halda því til haga. En hvaða atriði eru það? Jú, það er ást ríkisstjórnarinnar eða a.m.k. annars stjórnarflokksins á Evrópusambandinu sem gerir það að verkum að við erum í þessari stöðu. Það er að mínu viti vanhæfni til þess að stjórna landinu. Hér er ekki verið að taka á hlutum með réttum hætti. Og svo er það hið sérkennilega sjálfsmat sem ríkisstjórnin virðist hafa, að það eina góða sem til sé í dag sé einhvers konar vinstri stjórn, jafnvel þó að afleiðingarnar séu þær sem allir eru að upplifa í dag, við erum að fara að taka á okkur skuldbindingar upp á hundruð milljarða fram í framtíðina, við erum að taka á okkur skattahækkanir, niðurskurð og sjáum fram á að atvinnulífið muni eiga erfitt framdráttar og þá heimilin um leið. Ef þetta er fórnarkostnaðurinn fyrir vinstri stjórn, þá er það mín skoðun að þessir tveir flokkar ættu að hugsa sinn gang aðeins.

Eitt hef ég nefnt nokkrum sinnum þegar ég fjalla um þetta mál og ætla að nefna hér einu sinni enn og veit að menn eru mér missammála um það, ég held að við höfum haldið mjög illa á okkar málum í þessu, stjórnvöld hafa haldið illa á Icesave-málinu, Icesave-samningunum fyrst og fremst. Við höfum ekki beitt okkur á alþjóðavettvangi, eins og við hefðum átt að gera. Það er nú eins og hvert annað grín þau bréf sem hafa sést hér í fjölmiðlum frá ríkisstjórninni sem er nú, ég man ekki, eitt eða tvö líklega. (Gripið fram í: Kæri Jens ...!) Já, kæri Jens, einhver kurteisleg bréf. Ég hef sagt og segi enn að auðvitað eigum við að beita okkur af fullri hörku í þeim alþjóðasamtökum sem við erum í. Við erum kúguð hér, það er verið að kúga íslenska þjóð af Evrópuríkjum, af svokölluðum vinum okkar í gegnum Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Af hverju höfum við ekki tekið þetta upp af hörku í þeim erlendu samtökum sem við erum í með þessum þjóðum? Þá er ég nú að tala t.d. um NATO og Norðurlandaráð. Af hverju höfum við ekki svarað af fullri hörku þegar á okkur er ráðist? Það er nefnilega þannig. Við höfum ekki gert það. Við höfum ekki notað þennan vettvang.

Ég verð að viðurkenna að mér hitnar aðeins í kinnum þegar ég hugsa um þessa hluti, því ef einhvern tímann hefur verið þörf á því að við beitum okkur af hörku á alþjóðavettvangi, þá held ég að það sé núna. Ég held að Alþingi eða ríkisstjórn hafi ekki tekið þvílíkan slag fyrir hönd íslenskrar þjóðar í marga áratugi, væntanlega ekki frá því að við vorum í landhelgisdeilunni. Og að horfa til þess að við séum trúlega að fórna eða a.m.k. að gera mun lakari framtíðarmöguleika þeirra sem munu erfa landið, barnanna, þeirra sem munu bera hitann og þungann af þessum kostnaði, við erum að rýra möguleika þeirra og lífskjör með því að samþykkja þessa samninga. Það sem Alþingi ætti að gera nú sem fyrr er að segja einfaldlega við framkvæmdarvaldið — því það er framkvæmdarvaldið sem kom okkur nú í þennan farsa sem við erum í hér í dag að koma með þetta aftur inn í þingið og virða að vettugi það sem Alþingi samþykkti í ágúst — við eigum að segja við framkvæmdarvaldið: Nei, við hér á Alþingi erum ekki tilbúin til að fara aðra umferð í þessu, það sem samþykkt var í ágúst stendur. Ef Bretar og Hollendingar eru ósáttir við það geta þeir komið og sótt okkur til saka fyrir íslenskum dómstólum, því það er algerlega óverjandi að ríkisstjórnin og meiri hlutinn virðast ætla og hafa lýst því yfir í sjálfu sér með þessu að þeir treysti ekki íslenskum dómstólum. Við eigum að bjóða þá velkomna hér í næsta nágrenni til að fara með þetta fyrir dóm, eða þá semja við okkur upp á nýtt, semja við okkur á forsendum sem við ráðum við. Því ef ég þekki þessar þjóðir rétt vilja þær fá aurana sína til baka, en það getur ekki verið ásættanlegt, hvorki fyrir þá né aðra, ekki fyrir Evrópuþjóðir, ekki fyrir alþjóðasamfélagið, að þjóð sé kúguð með þeim hætti sem nú er gert.

Því skora ég á ykkur, hv. samþingmenn mína hér á Alþingi, að sjá til þess að sá gjörningur sem hér liggur fyrir verði ekki samþykktur, hann fari ekki í gegnum þingið. Ég skora á ykkur að horfa inn í hugskot ykkar og hugsa um framtíðina.