138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:38]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvernig stjórnarliðar fylkja sér á bak við þetta mál er mér hulin ráðgáta, eins og held ég hv. þingmanni. En vitanlega má hugsa sér að þær þvinganir og hótanir sem við höfum séð hafi verið til þess fallnar að skapa ákveðið andrúmsloft til að ná nægu fylgi á bak við þessar ákvarðanir og bak við þennan samning og að sjóðnum hafi þá líka verið beitt af hálfu Íslendinga með þeim hætti sem virðist vera. Hvernig sem það er, er ábyrgðin alltaf hjá ríkisstjórninni vegna þess að ef þetta er ekki ástæðan, er hún sú að ríkisstjórnin stóð sig ekki í því að gera hér þær efnahagsumbætur sem krafist var. Í rauninni er bara um tvennt að velja. Það er það sem hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson nefndi hér eða það, sem ég held að sé hlutur sem spilar alla vega inn í, að stjórnvöld hafa ekki staðið sig í þeim störfum sem þeim voru falin og ég held að það sé ekki síður mikilvægt.

Varðandi það að fara fram á opinbera rannsókn, ég tek heils hugar undir það. Ég held að við ættum að gera þá kröfu á fulltrúa okkar í stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að það fari fram rannsókn, opinber rannsókn á því hvernig haldið hefur verið á þessum málum. Ef það næst ekki fram hljótum við að velta því fyrir okkur hvort við berum traust til þessa sjóðs og til þeirra sem þar sitja fyrir okkur og það er full ástæða til þess að velta því upp.

Ég sagði áðan og endurtek það að það er rannsóknarinnar virði hvernig Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur haldið á málum gagnvart Íslandi.