138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:45]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér aftur hljóðs undir liðnum fundarstjórn forseta til að ítreka þá beiðni sem ég lagði fyrir forseta áðan um að þessum umræðum yrði útvarpað. Ég ítreka að við erum að ræða eitt mikilvægasta mál sem þjóðin hefur lent í á lýðveldistímanum og full ástæða er til að auka aðgengi þjóðarinnar að því að geta fylgst með þessum umræðum.

Það er kjörið tækifæri að nota til þess t.d. Rás 1 hjá Ríkisútvarpinu. Þá fá sjómenn okkar á miðunum úti og fólk í afskekktum byggðum að heyra umræðuna og heyra þann rökflutning sem fer hér fram. Ég held líka að þetta gæti orðið hvati fyrir stjórnarþingmenn og fulltrúa ríkisstjórnarinnar til að sinna þessari umræðu og sýna henni einhvern áhuga. Þá mætti vænta þess að þau sýndu sig í þingsalnum og hlustuðu á þau rök sem stjórnarandstaðan leggur fram í þessu máli.

Ég ítreka þessa beiðni, virðulegi forseti, legg það til að þingfundi (Forseti hringir.) verði frestað, þetta tekið fyrir og úr þessu bætt.