138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:48]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Bara rétt aðeins vegna þeirrar umræðu sem hér er orðin um að útvarpa eigi umræðunum vil ég vekja máls á því að m.a. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa um margra ára skeið flutt þingsályktunartillögur um útvarp frá Alþingi sem stjórnarflokkarnir fyrrverandi sáu ekki ástæðu til að afgreiða, sérstaklega ekki Sjálfstæðisflokkurinn. Nú veit ég ekki betur en að aftur sé komin fram tillaga um þetta sama atriði og vænti ég þess þá að hún fái góðan og breiðan stuðning í þinginu því að það er greinilega mikil eftirspurn eftir þessu. (Gripið fram í.)

Varðandi umræðuna um kvöldfund og að hér hafi 26 þingmenn greitt atkvæði með því er auðvitað til þess að horfa að þá þegar voru margir á mælendaskrá og augljóst að margir mundu vilja tala. Það var mikilvægt að þeir sem eru á mælendaskrá kæmust að og til þess var sú ákvörðun tekin að hafa hér kvöldfund, (Gripið fram í: Hún var ekki …) til að þeir sem vildu endilega komast að í umræðunni gætu gert það hið fyrsta.