138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:49]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Fyrst aðeins út af síðustu orðum hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar um mælendaskrána, svo virðist sem þingmaðurinn hafi stóra og mikla kristalskúlu vegna þess að þegar atkvæðagreiðslan var um kvöldfund vissi ég ekki til þess að komin væri nein mælendaskrá. (Gripið fram í.) Þingmaðurinn hlýtur að vera ótrúlega forspár að sjá svona hluti fyrir.

Annað vildi ég nefna líka, þá ágætu hugmynd sem hefur komið hér upp frá hv. þm. Jóni Gunnarssyni um að umræðum héðan úr þinginu yrði nú útvarpað. Ég tek undir með þingmanninum, það yrði kannski til þess að fleiri stjórnarþingmenn tækju til máls. Það vekur óneitanlega athygli að af þessum 18 sem eru á mælendaskrá núna eru aðeins fjórir stjórnarliðar. Þeir eru líka í kringum þá tölu í þingsalnum núna, reyndar aðeins fleiri í augnablikinu og er það vel. Ég tek undir það, frú forseti, (Forseti hringir.) að þetta er hin prýðilegasta hugmynd og ég vil líka nefna að úr því að segja má að vinstri grænir (Forseti hringir.) hafi „fattað upp á henni“ hljótum við að geta komið þessu í gegn.