138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:50]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég tel einnig ástæðu til að taka undir báðar tillögur hv. þm. Jóns Gunnarssonar, annars vegar þá að farið verði að senda út héðan frá þinginu í útvarpi, sérstaklega þessar umræður, og mjög ánægjulegt er að hv. þm. Árni Þór Sigurðsson skuli taka undir þetta og rifja upp að vinstri grænir hafi fyrstir fundið upp á þessu. Þetta gefur líka tækifæri til að stjórn og stjórnarandstaða sameinist hér um mál. Það er mjög ánægjulegt að svo skuli bregða við.

Hinu er ég líka algjörlega sammála, það er náttúrlega fráleitt að halda þessum fundum hérna gangandi fram á kvöld þegar í fyrsta lagi stjórnarliðar virðast, þeir sem höfðu áhuga á þessum kvöldfundi, flestir ekki hafa tök á að mæta og eins skilar þessi umræða sér ekki sem skyldi þegar hún fer fram við þessar aðstæður.