138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:53]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér er alveg kunnugt um þetta mat Seðlabankans sem reyndar gengur út á það að hérna verði vöruskiptaafgangur upp á 11–14% sem er nánast algjörlega óþekkt fyrirbrigði. En látum það nú vera, þetta er það mat sem þarna liggur fyrir. Ég var hins vegar ekkert að spyrja um það, ég er læs og get alveg lesið þetta í mati Seðlabankans, er búinn að gera það og það er margoft búið að ræða það hérna í dag. Ég var hins vegar að velta fyrir mér hvort efnahags- og skattanefnd sem fékk þetta til meðhöndlunar, og sérstaklega auðvitað stjórnarmeirihlutinn í þeirri nefnd, hafi ekki velt fyrir sér hver yrðu hin efnahagslegu áhrif af því að framkvæmdarvaldið tók með freklegum hætti fram fyrir hendurnar á Alþingi. Alþingi ákvað að efnahagslegu skilmálarnir ættu að vera með tilteknum hætti, framkvæmdarvaldið ákvað að hafa þetta ekki þannig, breytti þessum fyrirvörum, þessum skilmálum og þeir eru miklu verri núna. Það hlýtur að hafa efnahagsleg áhrif og ég spurði hv. þingmann hvort nefndin hefði virkilega ekki velt því fyrir sér og reynt að búa sér til einhver töluleg viðmið um það hver hin efnahagslegu (Forseti hringir.) áhrif væru af þessu skemmdarverki framkvæmdarvaldsins.