138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:55]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann segir að við eigum auðvitað að klára málið. Það var gert. Málið var klárað í lok ágúst á Alþingi og samkvæmt þeim lögum sem gilda á Íslandi eiga bresk og hollensk stjórnvöld að fallast á skilmálana sem Alþingi hefur sett. Ég spyr hv. þingmann: Hafa bresk og hollensk stjórnvöld fallist á skilmálana formlega eða ekki fallist á þá formlega? Hafa þeir hafnað þeim formlega eða ekki?

Nú er það þannig að fyrrverandi leiðtogi Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra, er eitthvað með böggum hildar yfir þessu máli og segir að Íslendingar hafi alltaf samið af sakamannabekknum. Ég spyr hv. þingmann: Getur hv. þingmaður reynt að útskýra fyrir mér hvað Ingibjörg Sólrún Gísladóttir meinar með þessu nýja innhlaupi sínu í málið?