138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:57]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég spurði hv. þingmann hvort honum væri kunnugt um að Bretar og Hollendingar hefðu formlega fallist á skilmálana eða ekki fallist á þá.

Varðandi það sem hv. þingmaður sagði um mat Seðlabankans gerir Seðlabankinn ráð fyrir gífurlegum samdrætti í innflutningi. Veit hv. þingmaður hvað það þýðir? Í hvað fer innflutningur? Hann fer í lífskjör þjóðarinnar. Seðlabankinn gerir sem sagt ráð fyrir því að lífskjör þjóðarinnar verði skert verulega. Gerir hv. þingmaður sér grein fyrir því að við getum lent í þeirri stöðu að þurfa að borga vexti þó að við getum það ekki? Hvað er þá með að standa við skuldbindingar sínar ef við getum ekki borgað vextina sem við verðum að borga og í hvaða stöðu erum við þá? Munu þá ekki Bretar og Hollendingar segja okkur fyrir verkum, hvar við eigum að virkja, hverjir eigi að fá að veiða o.s.frv.?