138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:46]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér hefur aðeins verið minnst á fjölmiðla og ekki að tilefnislausu held ég. Ég tel að það sé þess virði að íhuga hvernig fjölmiðlar fjalla um og standa að umfjöllun um þetta mál og ég leyfi mér að segja það hér að það er mjög gagnrýnivert.

Mig langar að spyrja hv. þingmann eða velta því upp sem kom fram í grein Sigurðar Líndals í dag um stjórnarskrána, hvort það geti verið að þingið ætli sér að brjóta stjórnarskrána með því að samþykkja þann óskapnað sem þessi samningur er. Telur hv. þingmaður ástæðu til þess, eins og rætt var á þingflokksformannafundi í dag, að fjárlaganefnd láti skoða það sérstaklega hvort hætta sé á því að þarna sé verið að brjóta þetta grundvallarplagg okkar, tekur þingmaðurinn undir að það sé mikilvægt að gera það?

Eins langar mig að velta því upp við þingmanninn sem ég nefndi fyrr í kvöld, hvort það gæti verið ástæða til að rannsaka með óháðum hætti hvernig stjórnvöld hafa haldið á málum varðandi þetta líklega eitt stærsta hagsmunamál Íslands á síðari tímum, hvort það sé ekki þess virði, þó ekki væri nema fyrir söguna til að hafa það á hreinu hvar menn brugðust og hvar menn stóðu sig vel, að það verði hreinlega skipuð nefnd sem hafi það hlutverk að rannsaka hvernig stjórnvöld hafa haldið á hagsmunum íslenskrar þjóðar í þessu stóra máli.