138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:48]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á því að koma inn á það sem hv. þingmaður nefndi hér í sambandi við fjölmiðlana. Það hefur margoft komið fram í ræðustól Alþingis, m.a. í fyrirspurnum frá hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, að hæstv. forsætisráðherra hefur oft svarað eins og hún komi algjörlega af fjöllum, hún viti ekkert um hvað verið er að tala. Það hefur margoft komið hér fram.

Þess vegna hefur mér fundist mjög áhugavert hvers vegna fjölmiðlarnir kryfja það ekki að hæstv. forsætisráðherra, verkstjórinn sjálfur, hefur ekki séð sér fært að vera hér eina einustu mínútu undir þessari umræðu nokkurn tímann nema þegar verið var að afgreiða málið, að menn skuli ekki kryfja þessa hluti betur.

Síðan kom hann inn á það sem Sigurður Líndal lagaprófessor, mjög virtur lagaprófessor, skrifaði í Fréttablaðið í morgun. Auðvitað er fullt tilefni til þess, ég er ekki lögfræðimenntaður maður en það er alveg fullt tilefni til þess og það hlýtur að vera eðlilegt og ég ætla ekki meiri hluta fjárlaganefndar annað en að kalla hann á fund nefndarinnar á milli 2. og 3. umr. til að fara einmitt yfir þetta.

Það er líka mjög athyglisvert sem kemur fram hér þegar menn eru búnir að setja þessar EFTA-krækjur á bæði Ragnars H. Halls-ákvæðið og eins á það hvort Íslendingum beri að greiða þetta, lagalega fyrirvarann, og þá hef ég nú velt því upp og hef gert það í andsvörum í dag við suma hv. þingmenn: Ef Alþingi samþykkir þessi lög er Alþingi þá hugsanlega að taka undir það að þetta sé í raun og veru vantraust á íslenska dómstóla? Vegna þess að það kom alveg klárt fram á fundi fjárlaganefndar hjá breska lögfræðingnum sem var þar í símanum að þetta væri ekki flóknara en það að bresk og hollensk stjórnvöld treystu ekki íslenskum dómstólum.

Þess vegna hef ég spurt mig þeirrar spurningar, eðlilega: Ef Alþingi samþykkir lögin er það þá að (Forseti hringir.) taka undir þetta vantraust á íslenskum dómstólum?