138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:58]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Herra forseti. Það er nú svo að það eru málaferli í gangi og ýmsir ætla að láta reyna á neyðarlögin. Þær upplýsingar sem ég hef eru að niðurstaðan í fyrsta málinu ætti að liggja fyrir innan mánaðar, eins og hálfs mánaðar. Ég hef verið að spyrja og mér skilst á lögfræðingum að fyrsta málið geti oft verið fordæmisgefandi fyrir önnur mál og sýni hversu miklar líkur séu á því hvort haldið verði áfram með önnur málaferli.

Ég vildi spyrja hv. þm. Ásbjörn Óttarsson: Er þjóðin ekki þess virði að við bíðum eftir niðurstöðu? Getum við ekki sagt það að íslenskt efnahagslíf og fólkið í landinu, íslenskur almenningur sé þess virði að Alþingi gangi hægt um gleðinnar dyr í þessu máli og bíði eftir því að við séum komin með þetta algjörlega á hreint, þannig að við séum ekki að ganga endanlega frá íslensku efnahagslífi og möguleikanum á því að geta hugsanlega hafið endurreisnina einhvern tíma?