138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:02]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég tek undir þessi orð hv. þm. Þorgerðar K. Gunnarsdóttur. Staðreyndin er auðvitað sú að hæstv. forsætisráðherra hefur margoft lýst því yfir að hér sé um að ræða eitt mesta hagsmunamál okkar, eitthvert mikilvægasta málið sem við erum að glíma við. Hæstv. forsætisráðherra hefur notað þetta mál með þeim hætti að hóta stjórnarslitum, hefur rekið ráðherra úr ríkisstjórninni vegna þess, og hæstv. forsætisráðherra sem leiðtogi ríkisstjórnarinnar og leiðtogi þess þingmeirihluta sem stendur á bak við þetta frumvarp ber auðvitað ábyrgð á því og þarf að vera tilbúin að svara spurningum um það eins og aðrir þingmenn.

Og ég spyr hæstv. forseta: Hvers vegna er verið að halda þingmönnum lengi fram eftir kvöldi, klukkan er núna rúmlega 11 að kvöldi, ef ráðherrarnir (Forseti hringir.) geta leyft sér að vera fjarverandi umræðuna?