138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:09]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þá gagnrýni sem kemur fram frá hv. þingmönnum um fjarveru ráðherra á þessum fundi. Þetta er ekkert annað en vanvirða við Alþingi og alþingismenn þegar fram fer umræða um eitthvert mikilvægasta mál sem þessi þjóð hefur staðið frammi fyrir á lýðveldistímanum.

Mig langar einnig að beina spurningu til hæstv. forseta: Má ég ekki reikna með því að hann styðji það erindi sem ég mun senda forsætisnefnd núna um helgina til að taka fyrir á þriðjudaginn á fundi sínum um að útvarpað verði frá þessum umræðum strax á þriðjudaginn? Ég vona að forseti taki undir þetta sjónarmið og þau rök sem ég hef reifað fyrir þessari tillögu minni. Ég veit að þingflokki Vinstri grænna hefur oft verið umhugað um að meira sé útvarpað frá þinginu en gert hefur verið og ég spyr virðulegan forseta hvort ég megi ekki reikna með stuðningi (Forseti hringir.) hans við þessa tillögu mína.