138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:17]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Nú er langt liðið á kvöld og það var búið að semja um að hætt yrði ekki seinna en klukkan 12. Mig langar að spyrja hæstv. forseta hvort hann ætli sér að standa við það.

Ég held hins vegar, og vil koma því á framfæri, að það sé mikilvægt að forseti beiti sér fyrir því ef við ætlum að halda hér áfram að annaðhvort fjármálaráðherra eða forsætisráðherra verði þá við til loka þannig að þau heyri þó þær ræður sem eftir eru. Ef forsætisráðherra finnst hvergi held ég að það hljóti að vera hægt að hafa uppi á hæstv. fjármálaráðherra og mér fyndist mjög mikill bragur á því, ef forseti ætlar að halda hér áfram, að hann geri þá hlé meðan annar hvor ráðherrann í það minnsta er fundinn og komi hér í hús. Það er að mínu viti óvirðing við okkur sem þó nennum að standa og tala og reyna að tala fyrir hagsmunum þjóðarinnar í þessu stóra máli að enginn ráðherra, ekki einu sinni sá ráðherra sem fer með þetta mál og ber á því ábyrgð, skuli vera hér. Ég óska eftir því að forseti (Forseti hringir.) tjái sig um það hvort hann hyggst verða við þessum óskum og hvort (Forseti hringir.) hann vill þá beita sér í því ellegar slíta fundi.