138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

launakröfur á hendur Landsbanka.

[13:43]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Varðandi spurningu þá sem hér er sett fram gætir nokkurs misskilnings. Ég hef ekki ráðið þann mann til starfa sem hér um ræðir og vísað er til. Hann tók að sér að sinna afmörkuðum verkefnum. Mér var í sjálfu sér ekki kunnugt um hvaða kröfur hann gerir í þrotabú Landsbankans en las um það í fjölmiðlum. Ég kanna ekki fjárhagslegan bakgrunn allra þeirra sem koma að verkum, ég held að hv. þingmaður hljóti að skilja það.

Þessi ágæti maður taldist, annar tveggja, ótvírætt hæfur til að gegna starfi seðlabankastjóra. Hann var hæfni sinnar vegna, sem er óumdeild, fenginn til tiltekinna verka og hefur verið að vinna þau en þeim verkefnum er að ljúka. Hann hefur ekki verið ráðinn í neitt fast starf heldur hefur hann einvörðungu sinnt afmörkuðum verkefnum í tímavinnu. Þau verkefni ganga sinn gang eins og eðlilegt er. Það er ekki vilji til þess af minni hálfu að raða fólki inn án auglýsingar í ráðuneyti. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við reynum að hafa embættiskerfið skipað á faglegum forsendum. Ég hef margsinnis talað fyrir því að við tökum ráðningarvald alfarið af ráðherrum og setjum á einn stað í stjórnkerfinu ráðningu allra embættsmanna sem síðan flæði frjálst í gegnum stjórnkerfið. Þannig styrkjum við embættiskerfið og tryggjum fagmennsku þess þannig að ekki sé í hverju og einu ráðuneyti verið að taka ákvarðanir um ráðningar fólks.