138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

orð forsætisráðherra um Suðvesturlínu.

[13:50]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Já, þetta var mjög skýrt. Þarna var hæstv. fjármálaráðherra líka að slá á puttana á hæstv. forsætisráðherra vegna þess að kærufresturinn er ekki liðinn eins og við vitum. Ég gat því ekki betur heyrt en hæstv. fjármálaráðherra hafi verið að slá á puttana á forsætisráðherra. Það hlýtur að valda vonbrigðum og þá ætla ég að endurtaka spurninguna sem ég setti fram áðan og hæstv. ráðherra svaraði ekki: Voru yfirlýsingar hæstv. forsætisráðherra, sem ég fagna, sem hún flutti í mínum heimabæ, Reykjanesbæ, um helgina, í nánu og góðu samstarfi þessara tveggja forustumanna í ríkisstjórninni, hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra, þannig að það leiki enginn vafi á um hvern ég er að tala? Er það þannig í þessari ágætu ríkisstjórn að í þeirri viðleitni að vera með og á móti öllum sköpuðum hlutum sé hæstv. forsætisráðherra send út af örkinni til að segja einn hlut þannig að hæstv. fjármálaráðherra geti komið og sagt annan þannig að (Forseti hringir.) hægt sé að friða alla mögulega og ómögulega sem gætu einhvern tíma, eins undarlega og það hljómar, hugsað sér að styðja þessa ríkisstjórn?