138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

lögmæti neyðarlaganna.

[13:53]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Ég vil bera upp spurningu sem ekki varðar Icesave en tengist því óbeint. (Gripið fram í: Það má ekki.) Það má ekki bera upp spurningu um Icesave. Á kröfuhafafundi gamla Landsbankans kom fram að einhverjir kröfuhafar bankans þykjast láta reyna á lögmæti neyðarlaganna. Það hefur legið fyrir í töluverðan tíma. Heildarkröfur gamla Landsbankans eru sem sagt með áföllnum kostnaði 6.500 milljarðar. Þar af er búið að samþykkja forgangskröfu fyrir um 1.270 milljarða.

Margoft hefur komið fram að það er mikil óánægja hjá erlendum kröfuhöfum með setningu neyðarlaganna og eru þegar mál í ferli sem tengjast að vísu ekki Landsbankanum þar sem verið er að reyna að láta reyna á gildi neyðarlaganna. Þessir erlendu kröfuhafar eru ósáttir við tvennt: Annars vegar telja þeir að eignir hafi verið þjóðnýttar og hins vegar að leikreglum verið breytt eftir á. Sérstaklega eru menn ósáttir við ákvæði um að innstæður skulu gerðar að forgangskröfum í þrotabú og kröfuhöfum þar með mismunað eftir á.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn telur að hugsanleg ógilding neyðarlaganna fyrir dómstólum sé stærsti einstaki áhættuþátturinn fyrir íslenska ríkið og íslenskt efnahagslíf en skuldsetning ríkisins gæti aukist um allt að 620 milljarða kr. ef neyðarlögin mundu falla úr gildi sem mundi þýða heimsmet í skuldsetningu ríkissjóðs. Öll vonum við að sjálfsögðu að svo verði ekki og neyðarlögin standa á grunni stjórnskipulegs neyðarréttar. En hvað ef svo verður ekki? Er ríkisstjórnin búin að útbúa neyðaráætlun, vegna þess að við erum enn í sama strútsleik og fyrir bankahrunið? Allir gerðu ráð fyrir að bankakerfið mundi standa flest áföll af sér og enginn ímyndaði sér í sínum verstu martröðum að við gætum staðið frammi fyrir gjaldþroti stærstu banka landsins á einni viku. Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra: Ætla menn að láta taka sig aftur í bólinu líkt og virtist koma fram í hádegisfréttum í viðtali við Gylfa Magnússon efnahags- og viðskiptaráðherra? Er til neyðaráætlun? Er verið að útbúa neyðaráætlun eða er ætlunin að undirbúa neyðaráætlun? (Gripið fram í.) Hefur ríkisstjórnin eitthvert plan í erminni?