138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

atvinnustefna ríkisstjórnarinnar og skattahækkanir.

[14:00]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég hafði hugsað mér í dag að beina fyrirspurn til hæstv. iðnaðarráðherra sem er því miður fjarverandi vegna veikinda þannig að ég beini fyrirspurninni þess í stað til hæstv. fjármálaráðherra. Ég frábið mér engu að síður athugasemdir varðandi útlit mitt, vaxtarlag eða hvort ég sit eða stend undir ræðu hans. [Hlátur í þingsal.] Ég óska hins vegar eftir því að fá svar við spurningunni og bið allra náðarsamlegast um það.

Þannig er að við, allir hv. þingmenn hér, höfum fengið erindi frá nokkrum íslenskum aðilum sem eru í iðnaði, t.d. frá Nóa Síríusi, Kjarnavörum, Vífilfelli, Fróni, Ölgerðinni, Kexsmiðjunni, Góu, Kötlu og Freyju. Þessir aðilar hafa áhyggjur af því hvaða áhrif virðisaukaskattshækkanir muni hafa á framleiðslu þeirra. Rekstur þessara fyrirtækja hefur gengið ágætlega þar sem Íslendingar velja íslenskt í dag. Hins vegar er reksturinn erfiður að því leyti að rekstrarkostnaður hefur hækkað en verð hefur ekki verið hækkað til neytenda, sem þýðir verri afkomu. Auk þess sem virðisaukaskatturinn hækkar á þessar framleiðsluvörur eiga framleiðendur nú við hækkun rafmagnskostnaðar, eldsneytiskostnaðar, hækkun launakostnaðar vegna tryggingagjaldsins og hækkun tekjuskattsins. Þessir aðilar telja að afleiðingar af skattahækkunum muni sjást í því að þeir þurfi að segja upp fólki og jafnframt að þeir starfsmenn sem halda vinnu sinni muni fá lægri laun.

Ég vil beina þeirri spurningu til hæstv. fjármálaráðherra hvort þetta sé í hnotskurn atvinnustefna ríkisstjórnarinnar þar sem ég var að leita að henni ásamt öðrum hv. þingmönnum í sumar. Er þetta stefnan að skattleggja fyrirtækin þannig að þau þurfi að segja upp fólki og lækka laun þeirra starfsmanna sem halda vinnunni?