138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

atvinnustefna ríkisstjórnarinnar og skattahækkanir.

[14:02]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég skal reyna að sýna ýtrustu háttsemi í samskiptum mínum við hv. þingmann og sitja mjög á strák mínum og svara spurningunni.

Að sjálfsögðu eru þessir aðilar ekki ánægðir frekar en flestir aðrir með að þurfa að taka á sig einhverjar auknar byrðar. Ég hef ekki enn fundið þann mann á ferðum mínum landið eða í samskiptum sem er ánægður með að það séu hækkaðir á honum skattarnir. En einhvers staðar verðum við að bera niður. Það er verið að reyna að gera það með sanngjörnum hætti og dreifa þessum byrðum víða. Þessar framleiðslugreinar njóta góðs af lágu gengi krónunnar. Samkeppnisstaða þeirra gagnvart innflutningi t.d. hefur óumdeilanlega styrkst verulega og þess sér stað í verulega aukinni markaðshlutdeild flestrar framleiðslustarfsemi af þessu tagi í landinu. Að því leyti til er aðstaða þessara greina til að taka þetta á sig því betri en hún ella væri, þó að sjálfsögðu geti þeir borið sig illa undan þessu eins og aðrir hafa gert, flestir sem fá það boðað að á þá leggist nokkrar auknar álögur. Hér er þó ekki verið að tala um annað en það að færa þetta úr 7% upp í 14% þrep í virðisaukaskatti eins og það var áður og reyndar voru sumar vörur í 24,5% sem lentu svo niður í alla leið niður í 7% þegar sú breyting var gerð. Það er þá ekki farið nema hálfa leið til baka í ýmsum tilvikum.

Ég held því að þetta sé bara eins og margt fleira, ef það er skoðað þröngt og einangrað geta menn að sjálfsögðu fundið því allt til foráttu yfir höfuð að hækka þessa skatta eins og flesta aðra. En ef við horfum á heildarmyndina og spyrjum okkur að því: Þurfum við ekki að gera eitthvað af þessu tagi? Verðum við ekki að afla ríki og sveitarfélögum tekna til að standa hér undir nauðsynlegri samneyslu og draga úr halla ríkissjóðs með þessu ásamt niðurskurðinum? Ef svarið er jú verðum við einhvers staðar að bera niður (Gripið fram í.) og það verða sjálfsagt fæstir ánægðir með það. Hv. þingmenn dýpka ekki umræðuna með því að færa hana ofan í eitt lítið hólf og horfa bara á þann þátt málsins. (Gripið fram í.) Við skulum reyna að hafa heildarmyndina undir og spyrja okkur frekar að því: Er þetta séð í stóra samhenginu og er þetta sæmilega verjandi ákvörðun? Mín niðurstaða er: (Forseti hringir.) Já, þetta er langt frá því að vera það sem ég á erfiðast með að verja í þessum skattbreytingum.