138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

verkaskipting milli heilbrigðisráðuneytis og félags- og tryggingamálaráðuneytis vegna hjúkrunarheimila.

[14:30]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þegar Samfylkingin settist í ríkisstjórn vorið 2007 var fylgt eftir stefnu flokksins í málefnum aldraðra og yfirstjórn málaflokksins flutt í félags- og tryggingamálaráðuneytið. Aldraðir eru ekki sjúklingahópur heldur hópur fólks á ákveðnu æviskeiði sem á rétt á heilbrigðis- og félagsþjónustu eins og aðrir samfélagshópar í samræmi við þarfir hvers og eins. Núverandi stjórnarflokkar vinna samkvæmt þessari stefnu í mikilli sátt við hagsmunahópa, m.a. hagsmunasamtök aldraðra sem eru þeir sem nýta þjónustuna. Sú þróun hefur verið í félags- og heilbrigðisþjónustu á umliðnum árum og áratugum að draga sem mest úr vistun á stofnun og færa þjónustuna inn á heimili þeirra einstaklinga sem hennar njóta.

Í ráðuneytinu er unnin stefnumótunarvinna sem miðar að notkun þessarar þjónustu. Í dag þykja það sjálfsögð mannréttindi að fólk fái notið heimahjúkrunar og félagsþjónustu sem gerir því kleift að búa heima sem lengst.

Á Íslandi er dvalartími aldraðra á hjúkrunarheimilum að meðaltali mun lengri en á hinum Norðurlöndunum. Það eru mikilvæg mannréttindi að fólk geti búið heima eins lengi og kostur er. Stefnan er að dvalartími einstaklinga á hjúkrunarheimilum verði sem stystur en jafnframt að litið verði á hjúkrunarheimili sem heimili fólks sem þarf á mikilli þjónustu að halda sökum aldurs. Þau heimili munu kaupa þjónustu sem veitt eru af starfsmönnum heilbrigðiskerfisins rétt eins og tíðkast á sambýlum fatlaðra.

Samkvæmt þeirri stefnu sem nú er unnið eftir varðandi verkaskiptingu milli heilbrigðis- og félagsmálaráðuneytis í málefnum hjúkrunarheimila eru hjúkrunarheimili skilgreind sem heimili fólks og falla þar með undir félagsþjónustu. Einstaklingar sem þar búa eiga þá rétt á heimahjúkrun eins og aðrir sem búa heima. Sú heilbrigðisþjónusta verður hér eftir sem hingað til á ábyrgð heilbrigðisráðuneytisins. Stefnt er að því að málefni aldraðra flytjist til sveitarfélaga árið 2013 og er það liður í undirbúningnum (Forseti hringir.) að flytja málaflokkinn að öllu leyti yfir á forræði félags- og tryggingamálaráðuneytis.