138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

verkaskipting milli heilbrigðisráðuneytis og félags- og tryggingamálaráðuneytis vegna hjúkrunarheimila.

[14:35]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Svo öllu sé til haga haldið þá sagði sú sem hér stendur að hún væri ekki sannfærð um að málið væri til bóta. Ég þakka þessa umræðu. Það er greinilegt að aldraðir eiga hér hauka í horni þar sem hv. þingmenn eru og ég vil þakka hv. þm. Siv Friðleifsdóttur sérstaklega fyrir að vekja þessa umræðu.

Hvað varðar orð hv. þm. Ólafar Nordal vil ég taka undir með hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra um að það er óþarfi að vera mjög undrandi á þessari stöðu. Það er ekki eins og þetta komi eins og þruma úr heiðskíru lofti. (Gripið fram í.) Því til staðfestar get ég rakið ein þrjú ákvæði úr stjórnarsáttmála samstarfsyfirlýsingar ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs þar sem greinilega er stefnt að þessu jafnframt því sem stefnt er að því að sameina þessi tvö ráðuneyti, heilbrigðismála og félags- og tryggingamála. Ég hef ekki tíma til að rekja það en þetta er góð bók sem menn ættu að kynna sér og hafa á hraðbergi við hvert tækifæri. (Gripið fram í.)

Ég verð að segja, frú forseti, að ég tel að hægt sé að leysa þessi mál og vinna þau í góðri samvinnu þrátt fyrir að málið beri brátt að. Ég sagði ekki í máli mínu áðan að það ætti að stoppa þessa yfirfærslu nú um áramótin. Ég hvatti hins vegar til þess að hv. heilbrigðisnefnd og félagsmálanefnd kalli verkefnisstjórnina fyrir sig og fari nákvæmlega yfir málið, yfir rök og mótrök. Ég held að það sé mjög mikilvægt. Ég mun af minni hálfu skoða málið mjög vel og ég mun líta á það sem mitt hlutverk og ráðuneytis heilbrigðismála að tryggja að þjónustan skerðist ekki og að faglegt eftirlit með hjúkrunarheimilum og heimahjúkrun verði eflt. Um það skulum við sameinast, góðir þingmenn.