138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

viðvera ráðherra.

[14:44]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Ég ætla að fagna því sérstaklega að hæstv. forsætisráðherra er komin í hús vegna þess að ég ætlaði að gera það að tillögu minni að hæstv. forseti gerði hlé á þessum fundi þar til hún væri komin í hús. En þar sem ég ætlaði líka að athuga var hvort hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra yrði væntanlegur við umræðuna ákvað ég að falla ekki frá orðinu og spyr því hæstv. forseta hvort hægt sé að gera ráðstafanir til að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra sé hérna líka. Eins og hæstv. fjármálaráðherra tók fram í fyrirspurnatíma er þetta mikilvæga mál á dagskrá núna og við viljum gjarnan fá tækifæri til að spyrja ráðherrana um þau atriði sem okkur liggja á hjarta. Ég hvet hæstv. ráðherra, sem ég er mjög ánægð með að sjá í salnum, og hæstv. fjármálaráðherra, sem getur varla beðið með að ræða þetta mál, að taka líka þátt og svara spurningum því að það er ekki nóg að við köstum þeim fram ef þeim er síðan ekki svarað.