138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

viðvera ráðherra.

[14:51]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Mér sýnist augljóst að staðan í þessu máli er sú að eina vitið sé að taka það aftur inn í nefndina áður en 2. umr. er fram haldið enda hafa komið fram upplýsingar sem ekki er með nokkru móti hægt að halda fram að eigi ekki erindi við þá yfirferð sem á að fara fram í nefndinni, nú síðast upplýsingar er varða til að mynda 185 milljarða kr. og munar nú um minna. En þetta minnir líka á það sem við höfum reynt að benda á að ekkert hefur verið gert í því að leita eftir utanaðkomandi ráðgjöf um stöðu mála. Ég tel mig vita hvers vegna það er. Það er vegna þess að menn vilja ekki heyra staðreyndir málsins, þeir vilja ekki heyra frá utanaðkomandi ráðgjöfum að samningsstaða Íslands sé býsna sterk. En það er ekki hægt að Alþingi afgreiði málið með þeim hætti að ekki sé leitað eftir ráðgjöf varðandi grunnþætti málsins.