138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

viðvera ráðherra.

[14:52]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Ég held að nauðsynlegt sé að fá svar við því hjá hæstv. forseta hvort ástæða sé til að gera hlé á umræðunni og setja málið aftur inn í fjárlaganefnd til að fjalla um þau álitamál sem hér hafa verið rædd. Ég get upplýst um það sem fulltrúi í fjárlaganefnd að þeir þættir sem snúa að neyðarlögunum voru ekki ræddir ítarlega í nefndinni, hvorki í sumar og alls ekki í síðustu viku, vegna þess að sú umræða sem fór fram í nefndinni í lokaaðdraganda þessa máls var engin. Við fengum gesti og heyrðum sjónarmið þeirra en engin efnisleg umræða var í nefndinni um þessi einstöku álitamál heldur kaus meiri hluti nefndarinnar að taka málið út án þess að sú umræða hefði farið fram. Það er náttúrlega með ólíkindum að svo skuli hafa verið gert í máli sem varðar íslenska þjóð svo gríðarlega miklu, eins og þetta mál gerir, og hér er jafnvel um að ræða hluti sem munu kollvarpa þessu máli á þann hátt að sennilega er ábyrgðarlaust af þinginu að taka málið (Forseti hringir.) ekki til fullkominnar athugunar áður en það er afgreitt.