138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

viðvera ráðherra.

[14:54]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég vil lýsa yfir mikilli ánægju með fundarstjórn forseta að hún taki undir það og beini því til formanna nefndanna að þessi beiðni hafi komið hér fram því að forseti þingsins stýrir þinghaldinu og við í stjórnarandstöðunni höfum í fullri einlægni á síðustu vikum talað fyrir því að vinna saman að málefnum á þinginu og ná fram ákveðinni þjóðarsátt um það hvernig við vinnum okkur út úr vandanum. Það var ekki beint dæmi um einhverja þjóðarsátt eða vilja til samvinnu af hálfu stjórnarflokkanna að rífa málið út úr nefndum þingsins þrátt fyrir að við hefðum komið með mjög málefnalegar ábendingar um að fá til gesti sem gætu varpað frekara ljósi á þetta mál, því mörg álitamál eru enn í umræðunni. Það er ekki þinginu til sóma að við stöndum hér heilu dagana og þrætum um þessi mál inni í þingsal þegar við getum afgreitt þau, allavegana ágreiningsefnin, í nefndunum og snúið okkur þess í stað að því að afgreiða önnur brýn mál á þingi og reyna að vinna saman, (Forseti hringir.) stjórn og stjórnarandstaða, (Forseti hringir.) frú forseti.