138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:58]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það er eitt sem allir á þingi og utan þess sem um þetta mál hafa fjallað eru sammála um, hér er um að ræða gríðarlega stórt mál sem varðar gríðarlega mikla hagsmuni. Þetta er mál sem varðar það hvort íslenska ríkið ætlar að taka á sig ábyrgð á meira en 700 milljörðum kr., með vöxtum sem við þá upphæð bætast á næstu árum. Þetta er gríðarlega stórt mál. Til samanburðar má geta þess að fjárlagafrumvarpið nær ekki þessum tölum og við erum í fjárlaganefnd og á vettvangi annarra nefnda þingsins að fjalla um svo margfalt smærri upphæðir sem varða þó miklu. Þess vegna er auðvitað eðlilegt að þetta mál fái viðhlítandi umfjöllun í þinginu og að þeir þingmenn og þær þingnefndir sem um málið fjalla fari í smáatriðum ofan í alla þætti þess vegna þess að hér er um að ræða svo gríðarlega hagsmuni fyrir íslenska þjóð.

Við verðum að athuga að bara vaxtakostnaðurinn sem tengist þessari ríkisábyrgð getur verið gríðarlega hár og þungbær fyrir íslenska ríkið og íslenskan almenning. Hér er hugsanlega um að ræða vaxtaskuldbindingar upp á tugi milljarða kr. á ári, upphæðir sem menn hafa nefnt að eru svipaðar og við setjum í reksturinn á Landspítala – háskólasjúkrahúsi á einu ári, peninga sem eru sambærilegir við það sem við setjum í allt háskólakerfið, dómskerfið og lögregluna til samans og meira en það. Það er ekki nema von að menn gefi sér góðan tíma til að fara í gegnum þetta mál og telji það skipta miklu. Það er þess vegna ekki af neinni léttúð sem þingmenn stjórnarandstöðunnar benda á þann möguleika að málið gangi aftur til nefnda til að þær geti farið betur yfir ýmsa óskýrða og órædda þætti í þessu sambandi. Það er ekki af neinni léttúð og ekki af neinni meinbægni í garð hæstv. ríkisstjórnar, alls ekki, hér er aðeins um að ræða þingmenn sem taka hlutverk sitt alvarlega og vilja leggja vinnu í það að komast að sem stærstri niðurstöðu í máli sem allir eru sammála um að varði gríðarlega hagsmuni.

Ég ætla ekki að fara mikið í forsögu þessa máls, það hafa aðrir gert og mun ég ekki fara í að rekja hana. Það má auðvitað spyrja spurninga í sambandi við tilurð málsins og uppruna og hvers vegna við erum í þessum sporum, en það er ekki kjarni þess sem við þurfum að takast á við hér í dag.

Ég get þó ekki látið hjá líða að vísa í orð Sigurðar Líndals lagaprófessors sem fram komu m.a. í fjölmörgum greinum sem prófessorinn hefur skrifað um þessi mál, bæði á vefrit og í dagblöð. Prófessorinn sagði fyrir nokkrum vikum, með leyfi forseta:

„Nú mega það kallast firn mikil ef heil þjóð — og þá einnig komandi kynslóðir — eigi að ábyrgjast himinháar greiðslur sem einstaklingar hafa með umsvifum sínum stofnað til án þess að íslensk stjórnvöld og íslenskur almenningur hafi haft þar forgöngu. Ef íslenska ríkið og þar með þjóðin ætti að bera slíka ábyrgð yrði hún að styðjast við skýr fyrirmæli í lögum, fjölþjóðlegum samningum eða löglega bindandi yfirlýsingar forustumanna þjóðarinnar. En skilmerkilegar skýringar láta á sér standa og allar tilraunir til rökfærslu hafa endað í orðræðu sem litlu skilar. Það sýnir að minnsta kosti að óljóst er um ábyrgð Íslands.“

Þetta er rétt að hafa í huga. Það er líka rétt að hafa í huga að eftir mikla umræðu í þinginu í sumar, bæði á vettvangi nefnda þingsins og í þingsal, varð það niðurstaða Alþingis að samþykkja ríkisábyrgð með tilteknum skýrum lagalegum fyrirvörum. Ríkisábyrgðin var samþykkt og um það voru auðvitað skiptar skoðanir, þess vegna skiptist þingið í atkvæðagreiðslunni, en hins vegar varð það niðurstaða meiri hlutans að um skýra lagalega fyrirvara væri að ræða.

Ég ætla að vísa í nokkur ummæli hæstv. ráðherra og hv. þingmanna frá þessum tíma. Ég leyfi mér t.d. að vitna, með leyfi forseta, í orð hv. þm. Guðbjarts Hannessonar formanns fjárlaganefndar, sem orðaði það svo við 3. umr. málsins:

„Jafnframt hefur meiri hluti fjárlaganefndar sett þá fyrirvara sem við teljum þurfa til að tryggja sem best hagsmuni íslensku þjóðarinnar við afgreiðslu málsins. Ég vona að lokaafgreiðsla þess leiði til sáttar á milli samningsaðila um viðurkenningu á þeim öflugu fyrirvörum sem settir eru og þannig verði eytt þeirri efnahagslegu óvissu sem uppi hefur verið og tafið efnahagslega endurreisn og lánafyrirgreiðslur til íslenska ríkisins og einkaaðila.“ — Hann talar um öfluga fyrirvara.

Hv. þm. Guðbjartur Hannesson sagði meira um þetta. Hann talaði um að breytingarnar sem gerðar voru á þinginu í sumar og fyrirvararnir skiptu gríðarlega miklu máli í þessu sambandi og sagði m.a., með leyfi forseta:

„Í meðförum þingsins hefur sú ríkisábyrgð sem verið hefur til umfjöllunar lotið miklum og öflugum fyrirvörum sem við verðum síðan að fylgja eftir. Það er Alþingi sem setur þessa fyrirvara og það er Alþingi sem mun fylgja þeim eftir.“

Hæstv. fjármálaráðherra sagði við sama tækifæri, með leyfi forseta:

„Og það skal vera alveg skýrt af minni hálfu að ég tel að sú umgjörð sem Alþingi er hér að setja utan um þetta mál sé til bóta, hún styrki stöðu okkar, sérstaklega þegar eða ef á það reynir að virkja þurfi endurskoðunarákvæði samninganna, þá sé það styrkur að við höfum sett þessa hluti í efnahagslega og að hluta lagalega umgjörð sem er málefnaleg og sanngjörn, sem á að vera hægt að útskýra og réttlæta gagnvart viðsemjendum okkar.“

Þetta var meðal ummæla hv. þingmanna og hæstv. ráðherra um fyrirvarana, enginn dró úr því að hér væri um gríðarlega mikilvæga fyrirvara að ræða.

Það er líka ljóst að þessir fyrirvarar voru forsenda fyrir því að margir hv. þingmenn gátu stutt þetta frumvarp. Hv. þm. Atli Gíslason sagði t.d. í ræðu við 2. umr., með leyfi forseta:

„Í ljósi þeirra lagalegu og efnahagslegu fyrirvara sem nú hafa náðst og þeirrar breiðu samstöðu sem einnig framsóknarmenn lögðu sitt af mörkum til að næðist — því þótt framsóknarmenn vilji ganga lengra þá met ég vinnu þeirra sem leiddi til þeirra fyrirvara enda hafa þeir lýst ánægju sinni yfir efnahagslegu fyrirvörunum þó að þeir gagnrýni þá, þannig að það lögðu allir sitt af mörkum — í ljósi þessa var það mitt heildarmat að það væri illskásti kosturinn að samþykkja samninginn.“

Svo segir hann, með leyfi forseta:

„Þeir fyrirvarar sem settir voru í vinnu nefndarinnar eða nefndanna skipta fyrir mér sköpum og breyttu afstöðu minni til málsins. Það er svo einfalt.“

Í fjölmiðlum tjáðu fjölmargir hv. þingmenn sig um fyrirvarana. Hv. þm. Ásmundur Einar Daðason sagði í viðtali við Ríkisútvarpið 10. ágúst, með leyfi forseta:

„Og ég persónulega hef mjög miklar efasemdir um málið og ef ekki koma til mjög harðir fyrirvarar og strangir sem raunverulega takmarka ríkisábyrgðina að einhverju marki, upphæðina og einnig lagalegir fyrirvarar þá get ég persónulega ekki stutt það.“

Hv. formaður fjárlaganefndar sagði í viðtali við Ríkisútvarpið 26. ágúst:

„Það eru settir þarna mjög öflugir fyrirvarar sem skipta þjóðina miklu máli.“

Og í viðtali við Fréttablaðið sama dag:

„Við höfum unnið að því að styrkja það með íslenska hagsmuni í huga. Við það eru settir miklir lagalegir og efnahagslegir fyrirvarar og ég tel klárlega að málið sé miklu betur búið en í upphafi.“

Í samtali við Stöð 2 sagði hv. formaður fjárlaganefndar:

„Málinu er eins vel fyrir komið og hægt er og þessir fyrirvarar þéttir og öflugir en sanngjarnir gagnvart þeim aðilum sem eru mótaðilar okkar í samningum.“

Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson sagði í samtali við Ríkisútvarpið 17. ágúst:

„Þessar breytingar styrkja málið mjög mikið. Þetta styrkir stöðu Íslands og hagsmuni Íslands í framhaldinu og hjálpar til við að byggja upp okkar atvinnu- og efnahagslíf til framtíðar.“

Þetta eru nokkur dæmi um ummæli hv. þingmanna og hæstv. ráðherra sem leggja allt traust sitt á þá fyrirvara sem samþykktir voru af Alþingi 28. ágúst. Það er allt lagt undir varðandi þessa fyrirvara. Það er skýrt tekið fram hvað eftir annað að þessir fyrirvarar séu til þess fallnir að bæta málið, styrkja stöðu Íslands, standa vörð um íslenska hagsmuni — það er allt traust lagt á þessa fyrirvara. Þetta er rétt að hafa í huga þegar við göngum til þessarar umræðu hér í dag.

Ég gæti haldið áfram. Ég gæti vitnað í hæstv. forsætisráðherra sem hér er stödd. Hæstv. forsætisráðherra sagði í þingræðu 20. ágúst, með leyfi forseta:

„Skilningur minn, virðulegi forseti, á þessum fyrirvörum er eins og ég hef sagt að ég tel að þeir tryggi betur og skýri þau öryggisákvæði sem fjárlaganefnd vildi tryggja sem lúta sérstaklega að bæði efnahagslegum og lagalegum viðmiðunum.“

Síðar í sömu ræðu:

„… það er hlutverk stjórnvalda að taka þetta mál upp af festu við Hollendinga og Breta þegar niðurstaða er fengin í þinginu. Auðvitað er það hlutverk okkar að framfylgja því sem Alþingi samþykkir í þessu máli vegna þess að samningarnir voru undirritaðir með fyrirvara um samþykkt Alþingis. Stjórnvöld hafa því þá skyldu að ganga til þeirra viðræðna af fullri festu og ná fram því sem samþykkt hefur verið af Alþingi. Það er alveg ljóst.“

Þetta sagði hæstv. forsætisráðherra 20. ágúst. Viku síðar segir hæstv. forsætisráðherra í þingræðu:

„Ríkisstjórnin mun að sjálfsögðu virða niðurstöðu Alþingis og gera allt sem í hennar valdi stendur til að ljúka málinu farsællega. Íslensk stjórnvöld munu freista þess að sannfæra Breta og Hollendinga um að skynsamlegt sé að þeir fallist á forsendur Alþingis fyrir ríkisábyrgðinni eins og þeir koma fram í lögunum.“

Ekki var þó hæstv. forsætisráðherra alveg sannfærður um að það yrði auðvelt verk og sagði síðar í ræðu sinni, með leyfi forseta:

„Ég dreg þó enga dul á að við munum þurfa á öllum okkar sannfæringarkrafti að halda en þar búum við að hinni gríðarlega ítarlegu yfirferð sem málið hefur fengið í fjárlaganefnd og öðrum þingnefndum.“

Nú geta menn velt fyrir sér, þó að ég ætli ekki að gera það að aðalatriði í þessari umræðu, hvernig íslenskum stjórnvöldum gekk að fylgja eftir niðurstöðu Alþingis frá 28. ágúst af fullri festu og beita öllum sínum sannfæringarkrafti. Ég verð að segja að þar virðist mér þáttur íslenskra stjórnvalda heldur rýr. Hér er í öllum skilningi um að ræða risavaxið milliríkjamál sem varðar gríðarlega mikla hagsmuni og mér finnst að íslensk stjórnvöld, ríkisstjórn Íslands, hafi ekki fylgt málinu eftir af þeirri festu sem boðuð var þegar málið var afgreitt í þinginu.

Nú var það ágætt og gott sem komið hefur fram að hæstv. forsætisráðherra skyldi skrifa bréf til forsætisráðherra Breta og Hollendinga sama dag og þingið afgreiddi lögin hér 28. ágúst. Mér finnst hins vegar óskiljanlegt að fyrstu svör við því bréfi skyldu berast þegar komið var fram í nóvembermánuð, og það aðeins frá Hollendingum, og varla um nokkur svör að ræða, engin efnisleg svör sem ég kem auga á í því svarbréfi sem birt hefur verið. Og enn bíðum við svars frá forsætisráðherra Breta en eins og menn vita eru hagsmunirnir gagnvart Bretlandi enn þá meiri en gagnvart Hollandi. Enn þá bíðum við svars Gordons Browns við bréfi hæstv. forsætisráðherra. Hæstv. forsætisráðherra sagði okkur frá því í þinginu fyrir nokkrum vikum að hún biði eftir þessum svörum og vænti þessara svara. Hún getur kannski upplýst okkur í umræðunni hver viðbrögð hennar eru við því að fá ekki svör við formlegu bréfi sem hún sendi til kollega sinna í Bretlandi og Hollandi. Hver eru viðbrögð forsætisráðherra Íslands við því að forsætisráðherra Breta og Hollendinga virða hana ekki viðlits? Mér finnst alvarlegt mál fyrir ríkisstjórn Íslands og fyrir okkur öll að þessar þjóðir sem við höfum talið til vinaþjóða okkar, þótt þær hafi gengið fram hart gegn okkur í þessu máli, skuli ekki virða okkur svars með þessum hætti.

Við skulum hafa í huga að jafnvel þótt embættismenn hafi átt í viðræðum á þessum tíma sem við vitum um er auðvitað allt annað þegar þjóðarleiðtogar tala saman um grundvallaratriði í pólitískum samskiptum. Það er allt annað mál. Það kemur ekki í staðinn fyrir slík pólitísk samskipti fólks í æðstu stöðum að embættismenn skiptist á nótum um tæknileg útfærsluatriði. Það er ekki það sama. Mér finnst óskiljanlegt að ríkisstjórn Íslands hafi samþykkt að skrifa undir nýja samninga, viðaukasamninga, við Breta og Hollendinga án þess að kominn væri einhver botn í það hvernig forsætisráðherrar þessara ríkja svöruðu forsætisráðherra Íslendinga. Mér finnst það óskiljanlegt. Og er nú margt annað í þessu máli og forsögu þess illskiljanlegt.

Látum það vera. Hæstv. forsætisráðherra er hér viðstödd og getur útskýrt þetta betur síðar í umræðunni, hún getur greint frá því hvort um einhver önnur samskipti hefur verið að ræða milli forsætisráðherra og kollega hennar í þessum efnum en við höfum skjalfest gögn um. Hún getur þá greint frá því í hverju þau eru fólgin. Mér finnst þetta, eins og það birtist okkur þingmönnum miðað við þau gögn og fréttir sem komið hafa fram, óviðunandi eins og svo margt í þessu máli.

Það sem ég vildi leggja höfuðáherslu á hér í dag er auðvitað það að Alþingi samþykkti ríkisábyrgð á skuldbindingum tryggingarsjóðs með ríkum fyrirvörum 28. ágúst. Hér er komið fram frumvarp sem felur í sér verulegar breytingar á þessum fyrirvörum. Það er mitt álit og annarra þingmanna stjórnarandstöðunnar og fjölmargra sérfræðinga utan sala Alþingis að með þessum breytingum séu teknir úr sambandi eða þynntir verulega út þeir fyrirvarar sem mestu máli skipta. Mér er kunnugt um að ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn hefur aðra skoðun á þessu máli. Mér er kunnugt um það en mat okkar er að verið sé að þynna fyrirvarana út, eyðileggja þá fyrirvara sem geta skipt mestu máli, einkum ef efnahagsþróun verður hér ekki hagstæð, en það er einmitt við þær aðstæður að efnahagslífið þróist ekki vel sem við þurfum mest á þessum fyrirvörum að halda. Ef við sæjum fram á að allt yrði hér í blússandi vexti, efnahagslífið næði sér fljótt á strik og næði góðri uppsveiflu og varanlegri þyrftum við auðvitað minni áhyggjur að hafa af þessu máli. Þegar menn kaupa sér tryggingu kaupa menn sér tryggingu gegn ófyrirséðum óhöppum eða vondri þróun og vondum aðstæðum. Það var akkúrat það, eins og ég skildi þessa fyrirvara sem voru samþykktir hér í sumar, að þeir væru til að tryggja stöðu og hagsmuni Íslands ef ekki færi vel í efnahagslífinu, ef við stæðum frammi fyrir því að hagvöxtur yrði hér lítill sem enginn og ef efnahagsleg óáran yrði hér næstu árin, sem er vel hugsanlegt. Við höfum alveg dæmi um það frá öðrum löndum að samdráttar- eða stöðnunarskeið hefur varað í langan tíma.

Eins og bent hefur verið á í þessari umræðu hefur ríkisstjórnin fyrst og fremst boðað kreppudýpkandi úrræði, úrræði eða aðgerðir sem dýpka kreppuna frekar en að þau séu til þess fallin að atvinnulífið og efnahagslífið nái sér á strik. Fyrstu merkin eru ekki góð, fyrstu merkin um efnahagslega þróun næstu ára eru ekki góð. En burt séð frá því mati er a.m.k. ljóst að að okkar mati, þingmanna stjórnarandstöðunnar, eru þessir fyrirvarar þynntir út og gerðir óvirkir þar sem þeir skiptu mestu máli. Í þessu sambandi eru gríðarlega margar spurningar uppi en verkefni okkar þingmanna í þessari umræðu þegar við fjöllum um þetta lagafrumvarp hlýtur fyrst og fremst að vera að meta að hvaða leyti þetta frumvarp og nýju viðaukasamningarnir leiði til breytingar á réttarstöðunni frá því sem var eftir að Alþingi gekk frá lagasetningu sinni 28. ágúst. Aðrar spurningar eru ekki á borðum okkar í dag um þetta mál, þetta er kjarni málsins. Eru þeir fyrirvarar sem Alþingi samþykkti 28. ágúst, og meiri hluti þingsins lagði allt undir varðandi þá fyrirvara, enn þá virkir, skipta þeir enn þá máli, eða hafa þeir verið þynntir út með þeim hætti að þeir eru orðin tóm, ýmist horfnir eða orðin tóm?

Þar er hægt að koma víða við. Ég vísa að sjálfsögðu í ítarlegt nefndarálit þingmanna Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd sem gengu frá afar efnismiklu og góðu áliti þar sem tekið er á þessum þáttum. Ég vísa líka til minnihlutaálits sjálfstæðismanna og framsóknarmanna úr efnahags- og skattanefnd sem einnig tekur skýrt og vel á afmörkuðum þáttum málsins.

Þegar ég skoða álit meiri hluta fjárlaganefndar, meiri hluta Samfylkingar og Vinstri grænna í fjárlaganefnd, þeirri nefnd sem hafði ábyrgð og forgöngu um málið, bar ábyrgð á því gagnvart þinginu, verð ég að mörgu leyti fyrir vonbrigðum. Fyrst er að nefna að meiri hlutinn í fjárlaganefnd sem hafði falið efnahags- og skattanefnd að fara yfir ákveðna þætti málsins leggur ekkert sjálfstætt mat á þau efnisatriði sem koma fram í umsögnum minni hlutanna í efnahags- og skattanefnd. Út úr efnahags- og skattanefnd komu fjögur nefndarálit; eitt frá fulltrúum Samfylkingarinnar, eitt frá fulltrúum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, eitt frá fulltrúa Hreyfingarinnar og eitt frá fulltrúum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

Meiri hluti fjárlaganefndar fjallar ekki með nokkrum hætti um þessi álit í sínu áliti, hún leitar til efnahags- og skattanefndar, fær til sín álitin og birtir sem fylgiskjöl með nefndaráliti sínu en reynir ekkert að leggja mat á þau fjölmörgu álitaefni og gagnrýnisatriði sem koma fram í mörgum ágætum álitum minni hlutanna úr efnahags- og skattanefnd. Það hefði t.d. verið forvitnilegt ef meiri hluti fjárlaganefndar hefði fjallað um nefndarálit hv. þm. Ögmundar Jónassonar og Lilju Mósesdóttur úr efnahags- og skattanefnd. Það eru gerðar mjög alvarlegar athugasemdir við málið, miklum áhyggjum lýst af því. Ég verð ekki var við að meiri hluti fjárlaganefndar hafi gert neina tilraun til að svara þeim áhyggjum sem fram koma í því áliti, svo ekki sé talað um þau sjónarmið sem komu fram hjá stjórnarandstöðuflokkunum, sem líka voru ítarleg og vel rökstudd. Nei, nei, það er ekki orðum á þau eyðandi að mati fjárlaganefndar, það lá svo á að afgreiða málið út úr fjárlaganefnd að það var ekki hægt að taka einn fund í að ræða það sem kom út úr efnahags- og skattanefnd.

Ef ég fer í önnur atriði nefndarálits meiri hluta fjárlaganefndar eru víða fullyrðingar um að breytingarnar feli í sér samræmingu. Til dæmis er í kafla II um viðaukasamning og endurskoðunarákvæði fullyrt að breytingarnar í viðaukasamningnum séu gerðar til að, eins og þar segir, með leyfi forseta „samrýma að mestu leyti efni lánasamninganna og þeirra fyrirvara sem koma fram í 1.–4. gr. laganna nr. 96/2009 …“ Orðalagið „samrýma að mestu“ stenst auðvitað enga skoðun, ég kem nánar að því síðar.

Síðan þegar fjallað er um breytingar á lögum 96/2009 er skautað létt yfir og endurtekið að „samrýma að mestu leyti“ efni lánasamninganna fyrirvörum Alþingis frá því í sumar. Síðan lýsir meiri hlutinn skoðun sinni, með leyfi forseta:

„Það er álit meiri hluta fjárlaganefndar að meginefni fyrirvaranna hafi náð fram að ganga“ og telur að þetta sé með ásættanlegum hætti miðað við fyrri lög og að rétt sé að ljúka málinu með þessum hætti.

Svo segir:

„Fallist var á kröfu viðsemjenda íslenska ríkisins um að ríkisábyrgð á skuldbindingum tryggingarsjóðsins væri óskilyrt.“

Síðan er þetta mat meiri hlutans ekkert rökstutt nánar og stenst auðvitað enga skoðun eins og verður vikið nánar að síðar.

Í kafla IV í nefndarálitinu er fjallað um það sem kallað er Brussel-viðmið og hefur verið rætt mjög í þessari umræðu. Þar virðist mér einhver óskapleg rökleysa á ferðinni. Það er vísað í ákvæði laganna frá því í sumar þar sem fram kemur sá fyrirvari Alþingis að ríkisábyrgðin skuli háð þeirri forsendu að lánasamningarnir verði túlkaðir í samræmi við Brussel-viðmiðin. Þetta atriði er fellt út úr frumvarpinu og þess í stað er sett inn í viðaukasamningana ákvæði sem segir að samningsaðilar líti svo á að við samningagerðina nú hafi verið samið í samræmi við Brussel-viðmiðin. Það er sem sé sagt að búið sé að gera samninga í samræmi við Brussel-viðmiðin, en áður var gert ráð fyrir því að samningarnir yrðu í framtíðinni túlkaðir með hliðsjón af Brussel-viðmiðunum. Á þessu er verulegur munur. Núna er sem sagt gert ráð fyrir því að það sem stendur í samningstextanum sé í samræmi við Brussel-viðmiðin, en áður var því haldið sem öryggisventli að það ætti að túlka það sem stendur í textanum eins og Brussel-viðmiðin kveða á um. Ég held að við megum ekki draga úr því að þarna getur verið um að ræða verulegan mun þegar kemur að lögskýringum í framtíðinni.

Ég held að segja megi að þetta atriði sem átti að vera öryggisventill fyrir okkur Íslendinga sé nú orðið að öryggisventli fyrir Breta og Hollendinga, a.m.k. miklu frekar en okkur Íslendinga.

Varðandi þetta atriði leyfi ég mér að rifja það upp af því að ég er nú með einhverjar ræður hér frá fyrri tíð að hv. formaður fjárlaganefndar Guðbjartur Hannesson sagði við 2. umr. þegar þessi fyrirvari var kominn inn í textann, í sumar, með leyfi forseta:

„Í 1. tölulið greinarinnar er kveðið á um að lánasamningarnir verði túlkaðir í samræmi við Brussel-viðmiðin en mikil gagnrýni kom fram á það í nefndarstarfinu að samningarnir fælu ekki í sér beina tilvísun til þeirra. Meiri hlutinn telur að með ákvæðinu sé tryggt til hins ýtrasta að túlkun samninganna verði í samræmi við Brussel-viðmiðin þannig að Íslendingum verði gert kleift að endurreisa fjármála- og efnahagskerfi sitt.“

Svo er klykkt út með því að segja:

„Slíkur er skilningur meiri hluta nefndarinnar á Brussel-viðmiðunum.“

En nú er greinilega komin fram einhver ný túlkun sem felur í sér að þetta á að vera betra. Það er sem sagt betra að segja að textinn eins og hann er kominn inn í viðaukasamningana hafi verið skrifaður í samræmi við Brussel-viðmiðin en að halda þeim fyrirvara að menn geti síðar borið fyrir sig Brussel-viðmiðin þegar kemur að því að skýra þennan texta og túlka. Ég held að við gætum átt um þetta langar umræður, en auðvitað væri betra að þær ættu sér stað á vettvangi nefndar en í þingsal. Ég held hins vegar að þetta sé kjarnaatriði þar sem menn skilja hlutina eitthvað með mismunandi hætti og ég óttast að meiri hluti fjárlaganefndar misskilji stöðuna hvað þetta varðar, sé að semja sig niður í verri niðurstöðu en áður var þegar hún heldur að hún sé að gera betur. Ég held að þetta sé misskilningur.

Síðan má geta þess til gamans, bara svo maður vaði nú úr einu í annað, að látið hefur verið í það skína í umræðunni að það skipti ekki máli að búið sé að kippa því atriði út að ef viðræður milli Íslands annars vegar og Hollands og Bretlands hins vegar fari ekki fram eða leiði ekki til niðurstöðu hafi Alþingi rétt til þess að fella ríkisábyrgðina úr gildi. Það hefur verið látið í veðri vaka að það atriði skipti ekki máli. Þá er rétt, af því að hv. þm. Guðbjartur Hannesson stendur hér vígreifur, að rifja upp hvað hann sagði við 2. umr. málsins um þessar lagalegu forsendur í 1. og 2. mgr. í þeim ákvæðum sem vísa m.a. til Brussel-viðmiðanna, með leyfi forseta:

„… óhjákvæmilegt er annað en að kveða á um að Alþingi geti, fari viðræður ekki fram eða leiði ekki til niðurstöðu, tekið málið upp að nýju og takmarkað ríkisábyrgð samkvæmt lögunum í eðlilegu samræmi við tilefnið, sbr. 1. tölulið nýrrar 2. gr. um að samningsaðilar verði við rökstuddri og málefnalegri beiðni Íslands um endurskoðun samninganna samkvæmt ákvæðum þeirra.“

Þetta taldi hv. þingmaður gríðarlega mikilvægt í sumar, 20. ágúst, en núna er hv. þingmaður þeirrar skoðunar að það sé allt í lagi að þetta atriði falli niður. (GuðbH: … Brussel …) Ég heyrði ekki betur en að hv. þingmaður héldi því fram í umræðunum á fimmtudag að þessi varnagli varðandi viðbrögð við því að reyndi á lagalegan fyrirvara skipti engu máli. Hann segir: „… óhjákvæmilegt er annað en að kveða á um að Alþingi geti, fari viðræður ekki fram eða leiði ekki til niðurstöðu, tekið málið upp að nýju og takmarkað ríkisábyrgð samkvæmt lögunum í eðlilegu samræmi við tilefnið ...“ Þarna er texti sem er búið að fella út miðað við frumvarpið sem hér liggur fyrir og ekki er hægt að skilja hv. þm. Guðbjart Hannesson öðruvísi en svo að núna sé hann algjörlega ósammála þeim hv. þingmanni sem talaði 20. ágúst og sagði þessi orð sem ég hef vitnað hér til. Og hv. þm. Guðbjartur Hannesson hefur ekki skýrt það með neinum rökum hvers vegna hann hefur skipt um skoðun í þessu máli. Það hefur ekki komið fram.

Í stað þess að Alþingi geti með þeim hætti sem þarna er gert ráð fyrir tekið upp málið að nýju og skilyrt eða fellt úr gildi ríkisábyrgðina er núna bara sagt að það eigi að fara í viðræður við Hollendinga og Breta, ekkert um það hvað gerist ef slíkar viðræður annaðhvort fara ekki fram, ef Hollendingar og Bretar leika sama leikinn og þeir léku gagnvart hæstv. forsætisráðherra, svara ekki erindum eða svara bara með útúrsnúningum. Áður hafði Alþingi rétt til að taka málið upp einhliða og kveða á um nýjar forsendur, ný skilyrði, fella skilyrði, fella ríkisábyrgðina úr gildi, takmarka hana með einhverjum hætti eða eitthvað, en núna verður bara sú staða uppi að menn þurfa að fara í viðræður, annars breytist ekkert. Annars geta Bretar og Hollendingar haldið áfram að rukka í samræmi við efni lánasamninganna og skuldabréfin og Íslendingar hafa enga vörn í þessu.

Það gengur nú hratt á tíma minn en ég ætlaði að vísa til þess að rökstutt hefur verið með margvíslegum hætti að það ákvæði sem kennt hefur verið við Ragnar H. Hall hefur verið þynnt verulega út. Ég man ekki betur en að Ragnar Hall hafi sjálfur sagt í fjölmiðlum að þetta atriði hefði verið tætt niður. Aðrir hafa notað önnur orð um þetta. Að minnsta kosti er kominn einhver alveg ótrúlegur flækjuvinkill á þetta mál þar sem það er ljóst að ekki verður úthlutað samkvæmt þeim skilmálum sem Ragnars H. Hall fyrirvarinn gerir ráð fyrir nema íslenskur dómstóll komist að þeirri niðurstöðu að svo eigi að gera og að sú niðurstaða sé í samræmi við ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins. Það er sem sagt lagt með öllum hætti í hendur EFTA-dómstólsins að skera endanlega úr um þetta mál.

Eins og menn hafa komið oftsinnis inn á í umræðunni er verið að fella úr gildi tímatakmörk varðandi ríkisábyrgðina. Það er alveg skýrt að ríkisábyrgðin gilti bara í sjö ár samkvæmt lögunum sem samþykkt voru í sumar. Það var alveg ljóst að hún gilti bara til 2024 og eftir það yrði að fara í viðræður. Núna er ríkisábyrgðin algjörlega ótímabundin. Þetta er atriði sem skiptir verulega miklu máli í sambandi við það að ramma inn hvað það er sem við erum að ábyrgjast, en sá hemill eða öryggisventill er nú farinn.

Hið sama má segja um hinn svokallaða hagvaxtarfyrirvara, þar er búið að kippa því úr sambandi að miða eingöngu við hlutfall af vexti þjóðarframleiðslunnar á skilgreindu tímabili. Núna er sem sagt gert ráð fyrir því að alltaf skuli greiða vexti og það er öllum ljóst sem hafa eitthvað skoðað þetta mál að vaxtagreiðslurnar verða verulega íþyngjandi einar og sér. Burt séð frá fjárhæð höfuðstólsins, burt séð frá því hvernig höfuðstóllinn stendur nákvæmlega í dag, verður byrjað að reikna vexti á höfuðstólinn ef þetta verður samþykkt, 700 og eitthvað milljarða króna, frá síðustu áramótum, 1. janúar 2009. Það eru tugir milljarða sem geta safnast í skuldbindingar vegna vaxta bara á þessu ári.

Á næsta ári kemur annað eins til, vextir af höfuðstól sem koma inn í framtíðina. Þannig verður til einhver upphæð árið 2016, einhver höfuðstóll þá, núverandi höfuðstóll mínus eitthvað sem endurheimst hefur af eignum Landsbankans plús hins vegar vaxtakostnaðurinn sem á eftir að hlaðast upp allan þennan tíma. Hann þarf að greiða og það þarf að greiða vexti af þeirri upphæð burt séð frá einstökum tölum, það eru svo sem margir óvissuþættir í þessu og við vitum ekki hver höfuðstólsstaðan verður 2016, en við getum gert ráð fyrir að a.m.k. verði um hundruð milljarða að ræða. Sú upphæð tekur á sig vexti og þá vexti þarf að borga árlega hvernig sem efnahagsþróunin verður á Íslandi. Hvernig sem efnahagsástandið verður á Íslandi þurfum við að borga þetta, tugi milljarða, tugi milljarða á ári, burt séð frá því hvernig hagvaxtarþróun hefur verið. Með því er hagvaxtarfyrirvarinn ónýtur, eða a.m.k. lítils virði.

Ég ætla ekki að lesa hér eða vitna nánar til margra ágætra samantekta sem hv. þingmönnum er auðvitað kunnugt um í þessu máli. Ég vísa til plaggs frá Indefence-hópnum frá 2. nóvember þar sem farið er vandlega yfir þetta mál, lið fyrir lið. Lið fyrir lið er það rakið hvernig verið er að salla niður þessa fyrirvara sem samþykktir voru í sumar. Þetta mat Indefence-hópsins er alveg skýrt, það er verið að þynna verulega út og eyðileggja þá fyrirvara sem Alþingi samþykkti í sumar. Ég þykist vita að fjárlaganefnd hafi fengið afrit af þessu bréfi og það vekur furðu að ekki skuli reynt að svara þeim athugasemdum sem þar koma fram.

Hið sama á við um stutta en afar skýra grein frá lögfræðingunum Stefáni Má Stefánssyni prófessor og Lárusi Blöndal hæstaréttarlögmanni, sem töluvert hafa fjallað um þetta mál, sem birtist 31. október í Morgunblaðinu. Þar er það líka rakið lið fyrir lið hvernig fyrirvararnir frá því í sumar eru eyðilagðir.

Ég þykist fylgjast allvel með umræðum um þessi mál, en ég hef ekki séð rökstudd svör við þessum athugasemdum Stefáns Más Stefánssonar og Lárusar Blöndals. Ég spurði hv. formann fjárlaganefndar um einhver tiltekin atriði í þessu sambandi í umræðum hér á fimmtudaginn og hann vísaði til þess að fyrir fjárlaganefnd hefðu komið lögfræðingar sem hefðu verið annarrar skoðunar, en okkur vantar alveg röksemdafærslu. Hér setja tveir virtir lögfræðingar fram mjög alvarlegar athugasemdir og það hefur enginn reynt að rökstyðja svör við þeim. Menn hafa bara sagt: Við erum ekki sammála. Við þekkjum lögfræðinga sem eru ekki sammála. Það sagði mér maður að hann væri ekki sammála. En það hefur enginn komið með rök sem hrekja þessar athugasemdir lögfræðinganna og heldur ekki Indefence-hópsins sem neinu máli skiptir.

Að síðustu vildi ég nefna það að stjórnarskrárþátturinn í þessu máli liggur alveg óbættur hjá garði. Það kom fram í máli hv. þm. Guðbjarts Hannessonar, formanns fjárlaganefndar, að þetta hefði verið rætt við lögfræðinga sem tóku þátt í að semja frumvarpið á fundi fjárlaganefndar, en í nefndaráliti meiri hlutans og í ræðu hv. þm. Guðbjarts Hannessonar komu ekki fram nein rök fyrir því að stjórnarskráin væri ekki í hættu í þessu sambandi.

Sigurður Líndal skrifaði athyglisverða grein fyrir viku þar sem hann gerði alvarlegar athugasemdir í þessu sambandi. Þeim hefur ekki verið svarað. Það hefur enginn gert tilraun til að svara þeim. Hv. þm. Guðbjartur Hannesson svaraði því einu að það væri ekki hlutverk þingmanna að svara spurningum um stjórnarskrána. Við erum alltaf í þinginu að takast á við það í lagasetningu hvort lög sem samþykkt eru frá Alþingi samrýmist stjórnarskrá. Auðvitað vitum við ekki með vissu hvað við erum að gera, við kunnum að misstíga okkur, en við verðum a.m.k. að færa rök fyrir máli okkar. Ef við komumst að einhverri niðurstöðu verðum við að rökstyðja hana. Ef við teljum að gagnrýni sem gengur út á það að eitthvert atriði samræmist ekki stjórnarskrá, eigi ekki við rök að styðjast, svörum við því með rökum, ekki bara með því að segja: það sagði mér maður að þetta væri rangt. Það gengur ekki.

Það eru fleiri atriði sem ég vildi nefna, hæstv. forseti, (Forseti hringir.) ég verð að geyma það til síðari ræðu, en ég legg áherslu á að það sem sárvantar af hálfu stjórnarmeirihlutans í þessu máli (Forseti hringir.) eru svör og rök.