138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:45]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður Sigurður Ingi Jóhannsson nefnir hér. Hann vísar í greinargerð Daniels Gros, sem hefur reyndar borið á góma fyrr í umræðunni, og ekki get ég sagt að mér finnist þau svör sem hæstv. fjármálaráðherra gaf hér umræðu um störf þingsins eða í óundirbúnum fyrirspurnum í upphafi þingfundar vera fullnægjandi, alls ekki. Í mínum huga skildu svör hans eftir fleiri spurningar en þau svöruðu. Það eru fjöldamörg atriði í þessu.

Menn hafa nefnt þessa vaxtaáhættu, ef við getum sagt það svo, menn hafa líka nefnt gengisáhættu og það má nefna að þar er nú skautað létt yfir í áliti meiri hluta fjárlaganefndar. Það er nefnt og reifað að uppi séu áhyggjur af gengisáhættunni en það er hins vegar ekki tekin nein afstaða, það er enginn rökstuðningur, engin niðurstaða.

Svo er stjórnarskrárþátturinn sem ég nefndi áðan, hann skiptir líka máli. (Forseti hringir.) Síðan er eitt atriði sem ég verð að nefna að lokum sem varðar það að mér finnst enginn hafa (Forseti hringir.) kafað ofan í hvaða áhrif það hafi að nú er það enskur réttur og enskur dómstóll (Forseti hringir.) sem mun taka við í sambandi við túlkun mjög veigamikilla fyrirvara í þessu sambandi en ekki íslenskir (Forseti hringir.) dómstólar og íslensk lög.