138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:50]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni Þór Saari fyrir þessar spurningar. Mitt mat er það að yfirlýsing forseta frá því að hann undirritaði lögin í septemberbyrjun hafi ekki annað gildi en að vera rökstuðningur hans fyrir tiltekinni niðurstöðu. Þannig er yfirlýsingin sem hann gaf ekki með neinum stjórnskipulegum hætti bindandi. Hins vegar finnst mér alveg jafnljóst að forseti Íslands, sem sendir frá sér yfirlýsingu sem er orðuð með þeim hætti sem kom fram í byrjun september, getur ekki undirritað þessi lög. Það er alveg skýrt. Sá forseti sem undirritaði lögin í sumar með þeim fyrirvörum og með þeim rökstuðningi og áhersluatriðum sem þar komu fram, getur ekki undirritað það sem við erum að fjalla um hér í dag. Það mundi engan veginn standast. (Forseti hringir.)